Þrír jafnir og Tiger komst áfram

Scottie Scheffler horfir á eftir kúlunni en hann deilir efsta …
Scottie Scheffler horfir á eftir kúlunni en hann deilir efsta sætinu með tveimur löndum sínum. AFP/Andrew Redington

Bandaríkjamennirnir Scottie Scheffler, Bryson DeChambeau og Max Homa deila efsta sætinu á Masters-mótinu í golfi í Atlanta í Bandaríkjunum en öðrum hring mótsins var að ljúka.

Þeir hafa allir þrír leikið tvo fyrstu hringina á sex höggum undir pari vallarins, samtals á 138 höggum, en eins og hjá öðrum keppendum var skor þeirra hærra í dag en á fyrsta hringnum í gær.

DeChambeau sem var fyrstur eftir fyrsta hringinn lék á 73 höggum í dag, Scheffler á 72 og Homa á 71 höggi.

Næstur á eftir þeim er Daninn Nicolai Höjgaard sem lék á 73 höggum í dag og er samtals á fjórum höggum undir pari.

Tiger Woods flaug áfram í gegnum niðurskurðinn í 24. skipti í sögu Masters en hann lék á 72 höggum í dag eftir að hafa leikið á 73 í gær og deilir 22. sæti á samtals einu höggi yfir pari.

Rory McIlroy frá Norður-Írlandi lenti í miklum vandræðum í dag og lék á 77 höggum. Hann er því á fjórum höggum yfir pari, deilir 35.-43. sæti og á litla möguleika á að blanda sér í toppbaráttuna.

Tiger Woods þakkar kylfusveininum Lance Bennett eftir annan hringinn í …
Tiger Woods þakkar kylfusveininum Lance Bennett eftir annan hringinn í kvöld. AFP/Warren Little
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert