Kristján Viggó Norðurlandameistari

Kristján Viggó Sigfinnsson.
Kristján Viggó Sigfinnsson. Ljósmynd/FRÍ

Fyrri dagur á Norðurlandamóti 19 ára og yngri fór fram í dag. Ísland og Danmörk skipa sameiginlegt lið gegn Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. 

Í einstaklingskeppninni sigraði Kristján Viggó Sigfinnsson í hástökki og því Norðurlandameistari 19 ára og yngri. Hann stökk yfir 2,13 metra sem er 10 sentímetra bæting. Hann var einnig að jafna piltamet 16-17 ára sem Einar Karl Hjartarson setti árið 1997 og því orðið 22 ára gamalt.

Fjórir íslenskir keppendur fengu silfurverðlaun. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir fékk silfur í 100 metra hlaupi. Hún kom í mark á 12,08 sekúndum í 1,4 m/s mótvind. Hinrik Snær Steinsson kom annar í mark í 400 metra hlaupi á 48,74 sekúndum. Þórdís Eva Steinsdóttir varð einnig önnur í 400 metra hlaupi þegar hún hljóp á sínum ársbesta tíma, 55,64 sekúndum. Katla Rut Robertsdóttir Kluvers hljóp í sama hlaupi og varð áttunda á 58,83 sekúndum. Birna Kristín Kristjánsdóttir fékk svo fjórðu silfurverðlaun dagsins í langstökki þegar hún stökk 6,01 metra.

4×100 metra boðhlaupssveit Íslands fékk bronsverðlaun. Sveitina skipuðu Birna Kristín, Þórdís Eva, Katla Rut og Guðbjörg Jóna. Tími þeirra var 47,48 sekúndur.

Í kúluvarpi voru tveir íslenskir keppendur. Valdimar Hjalti Erlendsson varð fjórði þegar hann kastaði 16,08 metra. Valdimar hætti keppni eftir tvö köst til þess að spara sig fyrir kringlukastið sem fram fer á morgun. Það er hans helsta keppnisgrein. Sigursteinn Ásgeirsson varð í sjöunda sæti. Hann kastaði lengst 13,84 metra. Sigursteinn var að keppa á sínu fyrsta alþjóðlega móti fyrir Íslands hönd. Elísabet Rut Rúnarsdóttir þurfti því miður að hætta keppni í sleggjukastinu vegna meiðsla. Hún átti aðeins eitt kast sem var ekki gilt.

Hér má sjá öll úrslit dagsins og hér má sjá upptöku frá fyrri keppnisdegi. Keppni hefst svo aftur í fyrramálið klukkan átta að íslenskum tíma.

Birna Kristín Kristjánsdóttir
Birna Kristín Kristjánsdóttir Ljósmynd/FRÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert