María Rún og Ísak báru sigur úr býtum

María Rún Gunnlaugsdóttir.
María Rún Gunnlaugsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Um helgina fór fram Meistaramót Íslands í fjölþrautum. Fimmtarþraut kvenna lauk í gær þar sem María Rún Gunnlaugsdóttir úr FH sigraði með 3.927 stig. Irma Gunnarsdóttir úr Breiðabliki varð í öðru sæti með 3.481 stig og Katla Rut Róbertsdóttir Kluvers sem einnig keppir fyrir Breiðablik varð í þriðja sæti með 3.150 stig.

María Rún á best 3.940 stig og er hún í þriðja sæti afrekalistans á Íslandi. Íslandsmetið á Helga Margrét Þorsteinsdóttir og er það 4.298 stig. Þrautin hófst á 60 metra grindarhlaupi þar sem María sigraði á 8,76 sekúndum og tók hún þar með strax forystuna sem hún hélt allt til loka.

Þar næst var komið að hástökki þar sem Maríu hefur gengið vel í vetur og bætt sig tvívegis. Þar stökk hún 1,66 metra og sigraði þá grein. Á Norðurlandamóti innanhúss fyrir viku keppti María í hástökki þar sem hún bætti sinn besta árangur og stökk 1,75 metra.

Þriðja grein var kúluvarp þar sem Helga Margrét Haraldsdóttir úr ÍR kastaði lengst. Lengsta kast hennar var 11,93 metrar. Irma varð önnur og María Rún þriðja með kast upp á 11,65 metra. María sigraði svo síðustu tvær greinarnar sem voru langstökk og 800 metra hlaup. Hún stökk lengst 5,68 metra og hljóp á 2:24,04 sekúndum. María sigraði því fjórar af fimm greinum.

Ísak bætti sig

Í sjöþraut karla sigraði Ísak Óli Traustason, UMSS. Hann endaði með 5.344 stig sem er persónuleg bæting hjá honum. Þessi árangur kemur honum upp fyrir Svein Elías Elíasson og Þorstein Ingvarsson á afrekalistanum og er Ísak Óli nú í sjöunda sæti afrekalistans. Aðeins einu stigi á eftir Inga Rúnari Kristinssyni.

Ísak Óli sigraði í langstökki og 60 metra grindarhlaupi og bætti sinn persónulega árangur í 60 metra hlaupi, stangarstökki og 1.000 metra hlaupi. Í grindarhlaupinu jafnaði hann sinn besta árangur. Í öðru sæti í sjöþraut karla varð Benjamín Jóhann Johnsen úr ÍR með 5.200 stig og í því þriðja varð Gunnar Eyjólfsson úr UFA með 4.746 stig. 

Einar Daði Lárusson úr ÍR var meðal keppenda um helgina en hann á næstbesta árangur Íslands bæði í sjöþraut og tugþraut. Einar Daði hefur glímt við meiðsli síðastliðin ár en í vetur hefur hann æft hlaup og lyftingar vel. Hann hefur ekkert æft einstaka greinar og ákvað því í samráði við Þráin Hafsteinsson, þjálfara sinn, að sleppa stangarstökkinu.

Einar Daði sagðist vilja nýta mótið til þess að prófa sig áfram og virðist hann vera í ágætisstandi. Hann komst í gegnum fyrri daginn án þess að finna fyrir gömlum meiðslum og því verður gaman að fylgjast með Einari í sumar. 

Í fimmtarþraut stúlkna 16-17 ára sigraði Glódís Edda Þuríðardóttir úr KFA með 3.447 stig og í flokki stúlkna 15 ára og yngri sigraði Júlía Kristín Jóhannesdóttir úr Breiðabliki með 2.653 stig. 

Í sjöþraut pilta 18-19 ára sigraði Ragúel Pino Alexandersson, UFA, með 4.265 stig og í flokki pilta 16-17 ára sigraði Dagur Fannar Einarsson, Selfossi, með 4.520 stig. Í fimmtarþraut pilta 15 ára og yngri sigraði Sebastian Þór Bjarnason, Selfossi, með 2.644 stig.

Ísak Óli Traustason (lengst til hægri).
Ísak Óli Traustason (lengst til hægri). mbl.is/Stella Andrea
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert