Ekki alvarlegt en á slæmum stað

Sturla Snær í stórsvigskeppninni um síðustu helgi.
Sturla Snær í stórsvigskeppninni um síðustu helgi. AFP

„Höggið sem Sturla Snær fékk á legginn í stórsvigskeppninni varð þess valdandi að hann gat ekki keppt í sviginu. Þegar hann var kominn í skíðaklossana þá fann hann mikið til um leið og hann fór að hreyfa sig í upphituninni. Þá var tekin ákvörðun um að hann keppti ekki,“ sagði Jón Viðar Þorvaldsson, framkvæmdastjóri Skíðasambands Íslands, í samtali við Morgunblaðið í gærmorgun spurður út í meiðsli þau sem komu í veg fyrir þátttöku Sturlu Snæs Snorrasonar í svigkeppni Vetrarólympíuleikanna í Pyeongchang í Suður-Kóreu í fyrrinótt að íslenskum tíma.

Sturla Snær féll í brautinni í stórsvigskeppni leikanna fyrir nokkrum dögum með þeim afleiðingum að annað skíðið slóst í annan kálfa hans. „Höggið var það mikið að það virðist hafa leitt til þess að blæðing varð á milli vöðva. Þetta eru ekki alvarleg meiðsli en því miður á nógu slæmum stað til þess að koma í veg fyrir að Sturla Snær gæti tekið þátt,“ sagði Jón Viðar og bætti við að hann reiknaði ekki með að meiðslin myndu draga dilk á eftir sér. „Þau eru ekki alvarleg en hann þarf nokkra daga til viðbótar til að jafna sig.“

Þar með hafa íslensku keppendurnir í alpagreinum lokið þátttöku á Vetrarólympíuleikunum. Snorri Einarsson á eftir að taka þátt í einni grein, 50 km göngu, sem fram fer á laugardaginn. Þrír af íslensku keppendunum hafa þegar yfirgefið Pyeongchang, að sögn Jóns Viðars, þau Elsa Guðrún Jónsdóttir, Freydís Halla Einarsdóttir og Ísak Stianson Pedersen. Þau fór fljótlega eftir að þátttöku þeirra á leikunum lauk.

Sjá alla greinina um meira um Vetrarólympíuleikana í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert