Við stjórnuðum þessum leik frá A til Ö

Laufey Harpa Halldórsdóttir í baráttu við Viktoríu Diljá Halldórsdóttur en …
Laufey Harpa Halldórsdóttir í baráttu við Viktoríu Diljá Halldórsdóttur en Laufey lagði upp annað mark Tindastóls og skoraði það þriðja. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Tindastóll lagði Fylki 3:0 í Bestu-deild kvenna í dag og kom sér í 4. sætið í töflunni. Liðið spilaði gríðarlega vel jafnt í vörn sem sókn og gat þjálfarinn Halldór Jón Sigurðsson ekki annað en verið sáttur með leikinn. Hann kom í stutt spjall eftir leik.

„Þetta var hörkugóður sigur hjá okkur í dag og hann var síst of stór. Ég er helsáttur með 3:0 en við hefðum alveg getað skorað nokkur mörk til viðbótar.“

Stólarnir fengu svo sannarlega færin til þess. Tinna Brá Magnúsdóttir í marki Fylkis sá til þess að lengi vel var staðan bara 2:0 í leiknum. Fylkir sótti loks í sig veðrið seinni hluta seinni hálfleiks og hefði getað skorað og hleypt leiknum upp á lokasprettinum.

„Æ ég veit það ekki. Mér fannst þær einhvern veginn ekki getað skorað. Það var mín upplifun alla vega. Mér fannst við alltaf vera með þennan leik í teskeið frá fyrstu mínútu. Eðlilega þá sækja hin liðin á okkur. Það gerist í öllum leikjum. Mörg hver sækja mikið og önnur minna. Þessi leikur var bara í góðu jafnvægi hjá okkur allan tímann og við áttum sigurinn fyllilega skilinn.“

Já það má alveg taka undir þetta. Þið vörðust mjög vel og Fylkir fékk varla færi, bara fullt af hornspyrnum.

„Við fengum góða æfingu í síðasta leik en þá fengum við á okkur tólf hornspyrnur og annað eins af löngum innköstum. Mér fannst stelpurnar standa sig frábærlega, bæði í föstum leikatriðum og á opnum velli. Við stjórnuðum þessum leik frá A til Ö og verðskulduðum sigur.“

Þær eiga framtíðina fyrir sér

Nú verð ég að spyrja þig um húnveska vorið eða Skagstrendingana ykkar. Nú á blaðamaður við hinar bráðungu Elísu Bríeti Björnsdóttur og Birgittu Rún Finnbogadóttur, sem báðar eru fæddar árið 2008. Þær hafa byrjað alla leiki liðsins á tímabilinu og staðið sig virkilega vel.

„Þær eru hörkugóðar, góðir leikmenn. Ég er ánægður með þeirra framgöngu og geri ráð fyrir að það verði áframhald á. Þær eru bara rétt að byrja í þessu og eiga framtíðina fyrir sér.“

Þú passar vel upp á þær. Þær komu báðar af velli í leiknum.

„Elísa var búin að fá smá högg í leiknum. Það er leikur aftur á þriðjudaginn og það verður að passa álagið hjá svona ungum leikmönnum. Það er líka öðruvísi þegar maður er orðinn bæði eldri og reyndari þá hagar maður sér öðruvísi. Við tókum bara á þessu.

Við erum með hörkugóða leikmenn á bekknum. Hugrún og Aldís eru orðnir reynsluboltar og það er algjör lúxus að eiga slíka leikmenn í handraðanum. Það var ekki spurning um að koma þeim aðeins inn í takt við leikinn.“

Þá skulum við aðeins líta á næsta leik ykkar.

„Það er leikur við Val á útivelli. Það verður sjálfsagt eitthvað öðruvísi en í dag. Það var því gott að getað sparað einhverja orku hjá leikmönnum með því að taka þá að velli í dag.“

Þökkum KA fyrir gestrisnina

Svo má kannski spyrja um eitt að lokum. Það hlýtur að vera skrýtið að spila heimaleik hér á KA-vellinum.

Halldór Jón Sigurðsson fylgist með á hliðarlínunni í dag.
Halldór Jón Sigurðsson fylgist með á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

„Ég get ekki sagt annað en okkur hafi liðið vel hér í dag. Veðrið var gott og fín umgjörð. Við spiluðum bara flottan fótbolta á ágætis velli. Auðvitað viljum við spila heimaleikina á Króknum en vegna náttúruhamfara var það ekki mögulegt. Þá var ákveðið að færa leikinn hingað og við þökkum bara KA fyrir gestrisnina og höldum heim í Skagafjörð með þrjú góð stig.“

Ja, þú ert nú vanur því að vinna leiki hér í bænum.

Nú skellir Halldór Jón upp úr. Hann þjálfaði bæði karlalið Þórs og síðan kvennalið Þórs/KA og gerði norðankonur að Íslandsmeisturum og vissi upp á hár hvers blaðamaður var að vísa til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert