Enginn á að biðjast afsökunar á því að skora í Meistaradeildinni

„Þetta var ótrúlega skrítin tilfinning, að vera að fara að spila á móti gamla liðinu sínu,“ segir Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði Íslands í knattspyrnu og leikmaður Lyon í Frakklandi, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Sara Björk, sem er þrítug, varð Evrópumeistari með Lyon í ágúst 2020 eftir 3:1-sigur gegn Wolfsburg í úrslitaleik á Anoeta-vell­in­um í San Sebasti­án á Spáni en Sara Björk skoraði þriðja mark Lyon í leiknum í stöðunni 2:1 og tryggði þannig Lyon Evrópumeistaratitilinn.

Sara lék í fjögur ár með Wolfsburg áður en hún gekk til liðs við Lyon, sumarið 2020, og hún var því að mæta sínum gömlu liðsfélögum þremur mánuðum eftir að hún skipti um félag.

„Það var ótrúlega skrítin tilfinning að undirbúa sig fyrir þennan úrslitaleik og ég reyndi að hugsa sem minnst út í það að ég væri að fara mæta mínum fyrrverandi liðsfélögum,“ sagði Sara.

„Það spurðu mig margir hvað ég myndi gera ef ég skoraði í leiknum og ég vissi það í raun ekki sjálf. Þegar ég skoraði byrjaði ég að fagna en á sama tíma komu allar þessar tilfinningar.

Alexandra Popp, fyrirliði Wolfsburg, sagði á einhverjum blaðamannafundi eftir leik að ég hefði beðist afsökunar á því að hafa skorað. Það gerði ég aldrei og ég vil að það komi fram. 

Ég myndi aldrei biðjast afsökunar á því að skora mark í Meistaradeildinni og það á enginn að biðjast afsökunar á því,“ sagði Sara Björk meðal annars.

Viðtalið við Söru Björk í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert