Skoraði á gervigrasi KR - og nú magnaðasta mark Evrópudeildarinnar

Leikmenn Rangers fagna Kemar Roofe í Liege í gærkvöld.
Leikmenn Rangers fagna Kemar Roofe í Liege í gærkvöld. AFP

Fyrir hálfu tíunda ári síðan skoraði átján ára enskur strákur mark fyrir Víking úr Reykjavík í bikarleik gegn Knattspyrnufélagi Vesturbæjar á  gervigrasvelli KR í Vesturbænum.

Í gærkvöld skoraði sami strákur, nú 27 ára gamall, ótrúlegt mark fyrir skoska liðið Rangers gegn Standard Liege í Evrópudeildinni, af eigin vallarhelmingi, og innsiglaði með því 2:0 útisigur Skotanna á Belgunum.

Hann setti um leið met því aldrei áður hefur mark verið skorað með skoti fyrir aftan miðju í leik í þessari keppni. Roofe fékk boltann rétt fyrir utan eigin vítateigs og lék á þrjá leikmenn Standard áður en hann lét vaða á markið rétt áður en hann kom að miðlínunni, yfir markvörð Belganna og í netið.

Roofe kom til Víkings sem lánsmaður frá West Bromwich Albion í sex vikur vorið 2011 og tók þátt í tveimur leikjum í úrvalsdeildinni, auk þess sem hann skoraði annað marka Víkings í 2:0 sigri á KV í bikarkeppninni á gervigrasvelli KR-inga.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert