United líklegast til að landa Griezmann

Antoine Griezmann.
Antoine Griezmann. AFP

Manchester United virðist vera fremst á lista yfir þau félög sem talin eru líklegast til þess að kaupa franska sóknarmanninn Antoine Griezmann frá Atlético Madrid, fari svo að hann muni axla sín skinn.

Eric Olhats, njósnarinn sem uppgötvaði Griezmann og núverandi ráðgjafi hans, segir að auk United séu Chelsea, Manchester City, Barcelona og Real Madrid öll með augastað á leikmanninum sem hefur skorað 16 mörk í efstu deild Spánar á leiktíðinni.

Griezmann hefur 100 milljón evra klásúlu í samningi sínum hjá Atlético sem þýðir að séu félög tilbúin að reiða frá þá upphæð sé hann frjáls ferða sinna.

„Nú erum við á því stigi að við erum að safna saman upplýsingum frá félögunum sem hafa sýnt alvöru áhuga,” sagði Olhats í franska sjónvarpsþættinum Telefoot. Það er Sky Sports sem greinir frá.

„United var fyrst að ganga til viðræðna við okkur og eru [forráðamenn United] hvað hreinskilnastir um hvað það er sem þeir vilja,” sagði Olhats.

„Það eru 100 milljón evra klásúla sem stöðvar mörg félög en við erum að tala um United, City, Chelsea, Barcelona og Real Madrid,” sagði Olhats.

Griezmann skoraði sitt 100. mark á ferlinum gegn Espanyol á dögunum en Atlético er í 3. sæti 1. deildar Spánar og er komið í undanúrslit Meistaradeildarinnar þar sem liðið mætir Real Madrid.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert