Lampard við Tómas: Leikmennirnir skilja betur hvað þeir eru færir um

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Everton, ræddi við Tómas Þór Þórðarson, ritstjóra enska boltans á Símanum Sport, eftir markalaust jafntefli liðsins við Watford á útivelli í úrvalsdeildinni í kvöld.

„Ef þú nærð ekki að vinna ættirðu að reyna að forðast tap á þessum tímapunkti á tímabilinu, það er mjög mikilvægt fyrir okkur. Þeir voru í raun ekki að valda okkur neinum vandræðum varnarlega enda áttu þeir ekkert skot á mark okkar.

Við fengum nokkur færi en ekki nægilega mörg góð færi. Mér fannst við vera svolítið yfirspenntir í kjölfar tveggja frábærra sigra. Það var kannski búist við því að við myndum koma hingað og vinna.

Kannski var svolítil þreyta í mannskapnum eftir leikinn gegn Leicester. Við vorum ekki upp á okkar besta en mér fannst við vera sterkari aðilinn. Við tökum stigið og vitum hvað er fram undan,“ sagði Lampard.

Everton hefur náð í sjö stig í undanförnum þremur leikjum, haldið markinu hreinu í öllum þeirra, og spyrnt sér þannig úr fallsæti. Tómasi lék forvitni á að vita hverju liðið hafi breytt á undanförnum vikum eftir afar rýra uppskeru vikurnar á undan.

„Maður þarf bara að halda áfram að vinna vinnuna sína. Ég kom hérna á miðju tímabili og við vorum ekki á góðum stað hvað form og sjálfstraust leikmannanna varðar. Við byrjuðum vel en svo áttum við í miklum erfiðleikum, sérstaklega í útileikjum. Á Goodison [Park] höfum við verið í frábæru formi frá því að ég kom.

Á útivelli höfum við ekki verið að ná í stig. Við höfum haldið áfram að vinna, við erum að bæta okkur sem lið, leikmennirnir eru með meira sjálfstraust og skilja betur hverju þeir eru færir um að áorka og við þurfum að halda áfram að sýna það,“ sagði Lampard.

Viðtal Tómasar Þórs við Frank Lampard í kvöld má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert