Ísland hefði mætt Þjóðverjum og Króötum

Juri Knorr og Sebastian Heymann reyna að stöðva Elvar Örn …
Juri Knorr og Sebastian Heymann reyna að stöðva Elvar Örn Jónsson í leik Þýskalands og Íslands á EM þar sem Þjóðverjar unnu nauman sigur, 26:24. AFP/Ina Fassbender

Undankeppnin fyrir handknattleikskeppni karla á Ólympíuleikunum í París er komin á hreint eftir að Evrópumótinu lauk í Þýskalandi í gær.

Þar sem Danir og Frakkar voru þegar komnir með sæti á leikunum réð bronsleikur Svía og Þjóðverja úrslitum um hvor þjóðin kæmist beint á Ólympíuleikana. Svíar tryggðu sér þann keppnisrétt og það kemur því í hlut Alfreðs Gíslasonar og hans manna í þýska landsliðinu að fara í undankeppnina í mars ásamt ellefu öðrum liðum þar sem leikið verður um sex sæti á Ólympíuleikunum sem fram fara í París í júlí og ágúst.

Ísland var einu stigi frá því að komast áfram en liðið missti af sæti í undankeppninni til Austurríkis og hefði mætt bæði Þýskalandi og Króatíu, auk Alsír, en riðlarnir þrír eru þannig skipaðir:

1. riðill: Spánn, Slóvenía, Brasilía og Barein.
2. riðill: Þýskaland, Króatía, Austurríki og Alsír.
3. riðill: Noregur, Ungverjaland, Portúgal og Túnis.

Tvö efstu lið hvers riðils komast á Ólympíuleikana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert