„Hef ekkert út á staðsetningarnar hans að setja

Guy Smit, markvörður KR.
Guy Smit, markvörður KR. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Gregg Ryder, þjálfari KR, var eðlilega nokkuð svekktur eftir tap gegn Breiðabliki, 3:2, á Meistaravöllum í fjórðu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

„Ég er auðvitað mjög vonsvikinn að hafa tapað hérna á heimavelli. Aðal vandamálið okkar í kvöld var að þegar við lentum marki undir, hefðum við þurft að vera aðeins þéttari og stjórna leiknum betur. Mér fannst við alltaf geta náð inn einu eða tveimur mörkum þegar liði á leikinn, sérstaklega hérna á heimavelli. 

Ef við hefðum glímt aðeins betur við aðstæður á þessum tímapunkti held ég að við hefðum náð í jafntefli, eða jafnvel sigur. En seinni tvö mörkin sem við fáum á okkur voru ekki nægilega góð að okkar hálfu.

Ég er ánægður með hugarfarið hjá mínum mönnum en ég er ósáttur við seinni tvö mörkin sem við fáum á okkur. Við þurfum að gera betur í svona aðstæðum. Ég get ekkert sett út á strákana hvað varðar hugarfar og anda en kannski vantaði smá gæði á síðasta þriðjungnum í fyrri hálfleik. Heilt yfir var þetta fín frammistaða.“

Guy Smit, markvörður KR, gerði hræðileg mistök í þriðja marki Breiðabliks, sem kom andartaki eftir að KR hafði minnkað muninn í 2:1. Mikil umræða skapaðist eftir síðasta leik en þá fór Smit í nokkur skógarhlaup sem hefðu getað kostað KR.

„Ég hef sagt það áður að hann þarf að staðsetja sig framarlega til að glíma við löngu bolta andstæðingsins, því við erum að pressa með liðið okkar framarlega á vellinum. Ég hef ekkert út á staðsetningarnar hans að setja. Ég mun hins vegar þurfa að sjá þetta þriðja mark aftur og skoða það betur til að tjá mig um það.

Ef hann getur hreinsað boltann í burtu þá viljum við að hann geri það. Ég veit ekki enn hvort hann hefði getað hreinsað boltann í þriðja markinu í kvöld og eins og ég segi þarf ég að skoða það betur.“

Það gekk mikið á síðustu mínútur leiksins þar sem mikill hiti var innan vallar og báðir þjálfarar fengu m.a. gult spjald.

„Ég vil eiginlega ekki tjá mig um frammistöðu dómarans í dag. Ég vissi ekki einu sinni af því að ég hefði fengið gult spjald, ég veit ekkert fyrir hvað það var. Ég veit ekki.“

Eyþór Aron Wöhler, nýr leikmaður KR, kom inná sem varamaður í leiknum, sem og Stefán Árni Geirsson sem hefur verið erlendis í skóla.

„Hópurinn er góður, við erum ánægðir með hann og það er jákvætt að þeir séu að komast inn í hlutina. Rúrik byrjaði leikinn í dag í hægri bakverði og mér fannst hann standa sig mjög vel og ég er mjög ánægður með hann. Aron Þórður kom inn á miðjuna eftir erfitt undirbúningstímabil og skilaði góðri frammistöðu. Það voru góðar einstaklingsframmistöður í þessu hjá okkur.“

Eins og Ryder kom inná byrjaði Rúrik Gunnarsson, 19 ára gamall leikmaður, í hægri bakverði hjá KR í kvöld. Þetta var hans fyrsti byrjunarliðsleikur í efstu deild.

„Nei það var enginn vafi á því að hann myndi byrja leikinn. Hann var frábær á undirbúningstímabilinu og er með virkilega gott hugarfar. Ef ég á að vera hreinskilinn hefði hann líklega átt skilið að fá tækifærið fyrr, en hann hefur verið þolinmóður og nýtti tækifærið í kvöld.“

Gregg Ryder, þjálfari KR.
Gregg Ryder, þjálfari KR. Ljósmynd/Kristinn Steinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert