Gísli númer fjögur og Ómar sextán í heiminum

Gísli Þorgeir Kristjánsson er fjórði besti handboltamaður heims, að mati …
Gísli Þorgeir Kristjánsson er fjórði besti handboltamaður heims, að mati sérfræðinganna. Ljósmynd/Kristján Orri

Gísli Þorgeir Kristjánsson er fjórði besti handknattleiksmaður heims og Ómar Ingi Magnússon er í sextánda sæti.

Þetta er skoðun handboltasérfræðinganna Rasmus Boysen frá Danmörku og Stig Aa. Nygård frá Noregi sem birtu í gær árlega niðurstöðu sína á síðu norska atvinnuhandboltans, Topphandball.no

Tímabilið sem þeir fara eftir er frá 1. janúar 2023 til gærdagsins, 28. janúar, þegar Frakkland vann Danmörku í úrslitaleik Evrópumótsins.

Þrír bestu leikmenn heims, að þeirra mati, léku úrslitaleikinn. Frakkinn Dika Mem er í efsta sæti hjá þeim, Daninn Mathias Gidsel er annar og Frakkinn Ludovic Fabregas er þriðji.

Hvílíkur maður!

Fjórði á listanum er síðan Gísli Þorgeir sem fær eftirfarandi umsögn:

„Hvílíkur maður! Fór úr axlarlið í undanúrslitaleik Meistaradeildarinnar. Beit á jaxlinn og var besti maður vallarins þegar Magdeburg vann úrslitaleikinn. Fór síðan beint á skurðarborðið eftir tímabilið og sneri ekki aftur fyrr en á EM. Stórkostlegur leikstjórnandi sem er einn sá allra fljótasti að spila boltanum, auk þess að vera mjög marksækinn sjálfur.“

Ómar Ingi Magnússon er sagður vera númer 16 í heiminum …
Ómar Ingi Magnússon er sagður vera númer 16 í heiminum en var fjórði í fyrra. Ljósmynd/HSÍ

Síðan koma Danirnir Niklas Landin, Simon Pytlick og Emil Nielsen í fimmta til sjöunda sæti, Svíinn Felix Claar er áttundi, Daninn Magnus Saugstrup níundi, Spánverjinn Aleix Gómez tíundi, Frakkinn Nedim Remili ellefti, Spánverjinn Alex Dujsjebajev tólfti, Hollendingurinn Luc Steins þrettándi, Þjóðverjinn Andreas Wolff fjórtándi og fimmtándi er Svíinn Jim Gottfridsson.

Ómar gerir sjaldan mistök

Þá kemur Ómar Ingi Magnússon í sextánda sætinu og fær þessa umsögn:

„Var einn allrabesti leikmaður heims þegar hann slasaðist á síðasta tímabili. Markakóngur á fyrsta tímabili sínu í Búndeslígunni, markahæstur á EM fyrir tveimur árum og skaut Magdeburg á topp Búndeslígunnar. Ómar gerir sjaldan mistök. Hann hefur ekki náð sínu allra besta eftir meiðslin en gefum honum hálft tímabil í viðbót og þá er hann aftur orðinn einn af þeim bestu.“

Gísli og Ómar eru einu Íslendingarnir á fimmtíu manna listanum. Einu Norðmennirnir eru Sander Sagosen sem er í 18. sæti og Magnus Röd sem fær 50. og síðasta sætið.

Þegar Boysen og Nygård tóku saman sambærilegan lista fyrir ári síðan var Ómar í fjórða sæti og Gísli í því fjórtánda.

Dika Mem er besti handboltamaður heims að mati sérfræðinganna.
Dika Mem er besti handboltamaður heims að mati sérfræðinganna. AFP/Kirill Kudryavtsev
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert