Danir unnu uppgjör meistaranna

Það var hart barist í leik Þjóðverja og Dana.
Það var hart barist í leik Þjóðverja og Dana. AFP

Ólympíumeistarar Dana unnu gríðarlega mikilvægan 26:25-sigur á ríkjandi Evrópumeisturum Þýskalands á Evrópumóti karlalandsliða í handbolta í dag. Staðan í hálfleik var 9:8, Þjóðverjum í vil.

Þýskaland var yfir stóran hluta leiks en tókst aldrei að komast meira en tveimur mörkum yfir og Danir því ávallt skammt undan. Danir komust svo 19:18 yfir tíu mínútum fyrir leikslok og náðu 26:23 forystu í kjölfarið. Þýskaland skoraði tvö síðustu mörkin, en það dugði ekki til. 

Hans Óttar Lindberg skoraði níu mörk fyrir Dani og Mikkel Hansen fimm. Hjá Þjóðverjum var Julius Kuhn með sex mörk og Steffen Weinhold gerði fimm. Með sigrinum fóru Danir í toppsæti milliriðils 2 með sex stig. Þjóðverjar eru í 2. sæti með fjögur stig. Makedónía og Spánn koma í sætunum þar á eftir og eiga tvo leiki til góða. Þau mætast í seinni leik dagsins kl. 19:30. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert