Þriðji leikurinn færður inn í Akraneshöll

Erik Sandberg og liðsfélagar hans í ÍA hafa mestmegnis spilað …
Erik Sandberg og liðsfélagar hans í ÍA hafa mestmegnis spilað innanhúss á tímabilinu til þessa. mbl.is/Óttar Geirsson

Knattspyrnusamband Íslands hefur tilkynnt að leikur ÍA og FH í fjórðu umferð Bestu deildar karla hefur verið færður inn í Akraneshöll þar sem grasvöllur Skagamanna er ekki leikhæfur.

Er þetta þriðji leikur Skagamanna í röð sem er færður inn í höllina en ÍA mætti Fylki þar í þriðju umferð deildarinnar um síðustu helgi og einnig Tindastóli í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar í gær.

Einnig hefur KSÍ tilkynnt að leiktíma Vals og Fram í fjórðu umferð Bestu deildarinnar næstkomandi mánudagskvöld hefur verið breytt.

Leikurinn átti upphaflega að hefjast klukkan 19.15 á Hlíðarenda en fer þess í stað fram klukkan 18 á mánudagskvöldið.

Má ástæðuna fyrir því rekja til þess að karlalið Vals í körfuknattleik á leik á Hlíðarenda í undanúrslitum Íslandsmótsins. Hefst hann klukkan 20.15 og skarast leikirnir tveir því ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert