Í fallsæti í bikargleðinni?

Víkingur vann góðan sigur á Breðabiki í undanúrslitum Mjólkurbikarsins.
Víkingur vann góðan sigur á Breðabiki í undanúrslitum Mjólkurbikarsins. mbl.is/Arnþór

Rétt eftir að hafa fagnað sæti í bikarúrslitaleik í fyrsta sinn frá árinu 1971 gætu Víkingar hæglega staðið í þeim sporum annað kvöld að vera í fallsæti í Pepsi Max-deild karla í fótbolta. Sex umferðir eru eftir af deildinni og verður leikið í 17. umferð á morgun og á mánudagskvöld.

Grindavík, KA og Víkingur R. eru í harðri baráttu um að forðast að fylgja ÍBV niður í 1. deild. Eyjamenn eru langneðstir og gætu kvatt deildina formlega á mánudagskvöld ef úrslitin í umferðinni verða þeim í óhag. Þeir taka á móti KA sem er með 19 stig líkt og Víkingur, tveimur stigum fyrir ofan Grindavík.

Grindvíkingar freista þess að stöðva HK, sem hefur ekki tapað leik síðan í júní og unnið fimm af sex leikjum sínum síðan þá, síðast 4:1 gegn toppliði KR. Heimamenn verða án miðjumannsins mikilvæga Rodrigos Gomes sem tekur út leikbann.

FH án fyrirliðans

ÍA hefur sogast ansi nálægt fallsvæðinu eftir fimm leiki í röð án sigurs og er aðeins fimm stigum frá fallsæti fyrir útileikinn við Stjörnuna á morgun. ÍA verður án Alberts Hafsteinssonar, Óttars Bjarna Magnússonar og Sindra Snæs Magnússonar vegna leikbanns, og Stjarnan án Daníels Laxdal og Martins Rauschenbergs. Sigur í Garðabænum kæmi ÍA samt sem áður upp fyrir Stjörnuna því bæði lið eru enn með í baráttunni um Evrópusæti. Að sama skapi gæti Fylkir, sem er jafn ÍA að stigum, komist upp fyrir FH með sigri í leik liðanna í Kaplakrika. Fylkir verður án Geoffreys Castillions, lánsmanns frá FH, og FH án fyrirliðans Davíðs Þórs Viðarssonar.

Umferðinni lýkur á mánudagskvöld þegar efstu lið deildarinnar verða á ferðinni. KR tekur á móti Víkingi R. og Breiðablik mætir Val, en sjö stig skilja að KR og Breiðablik á toppi deildarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert