Hvernig getur mataræði haft jákvæð áhrif á streitu?

Jón Magnús Kristjánsson.
Jón Magnús Kristjánsson.

„Streita er órjúfanlegur hluti af hversdeginum. Við getum fundið fyrir streitu í tengslum við nánast alla þætti lífsins sem skipta okkur máli, hvort sem það er vegna vinnu, vina, fjölskyldu, útlits eða heilsu,“ segir Jón Magnús Kristjánsson framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsuvernd í Heilsublaði Nettó: 

Streita er í sjálfu sér ekki slæm heldur getur hæfilega mikil, skammvinn streita bætt einbeitingu, frammistöðu og jafnvel líðan. Þegar streitan eykst eða verður langvinnari fer hún hins vegar að hafa neikvæð áhrif. Flest þekkjum við að streita geti leitt til líkamlegra einkenna svo sem höfuðverkja, kviðaróþæginda og vöðvabólgu. Samkvæmt mælingum hefur streita aukist í þjóðfélaginu vegna COVID-19 og allra þeirra breytinga sem sóttvarnaraðgerðir hafa haft á þjóðfélagið, vinnuna okkar, skóla barnanna okkar og ekki síður á áhyggjur okkar af heilsunni. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að um einn af hverjum þremur finnur stöðugt fyrir mikilli streitu og að fjórðungur þeirra sem finna fyrir streitu leita í mat til að takast á við streituna.

Streita og mataræði

Streita hefur töluverð áhrif á hvað okkur langar að borða en góðu fréttirnar eru þær að mataræði getur líka haft áhrif á streituna. Flest okkar leita í sætindi eða salta fæðu þegar við erum stressuð. Ástæðan fyrir því er að streita stuðlar að losun hormónanna kortisól, insúlín og ghrelín til að undirbúa okkur undir að „berjast eða flýja“ og kalla þannig eftir óhollri fæðu til þess að tryggja að vöðvar og heilinn hafi nægan sykur til að brenna. Hormónin ásamt sykrinum sem við borðum leiða til þess að blóðsykur og insúlín hækka tímabundið. Þegar blóðsykurinn lækkar aftur (við fáum blóðsykurfall) verða kvíði og streita jafnvel enn meiri.

Á hinn bóginn stuðla „góðar“ fitur (úr fæðu eins og avókadó, valhnetum og eggjum) að losun jákvæðra boðefna sem minnka svengdartilfinningu og streitu ásamt því að bæta svefn og viðhalda orku. Langvarandi streita getur að auki leitt til þess að líkaminn verði ónæmur fyrir öðru hormóni (leptín) sem annars gefur boð um að við séum södd. Þessi breyting getur leitt til þess að við borðum meira en annars og þar með þyngdaraukningar.

Ákveðnar matartegundir reynast hafa góð áhrif á streitu

Flókin kolvetni Þó svo að einföld kolvetni auki streitustigið geta flókin kolvetni úr brúnum hrísgrjónum, kínóa og höfrum haldið blóðsykrinum stöðugum og þar með minnkað streituna.

Bananar

Bananar innhalda kalíum, magnesíum og B6-vítamín í töluverðu magni og allt þetta hefur verið tengt við minni streitu og betri andlega líðan.

Vatn

Það er mjög mikilvægt að drekka nóg vatn (um 2 l á dag fyrir konur og 2,5 l á dag fyrir karla) þegar streitustigið er hátt. Jafnvel vægur þurrkur leiðir til frekari hækkunar á streituhormóninu kortisól sem eykur enn á streituna.

C-vítamín

C-vítamín úr appelsínum, jarðarberjum, spínati eða grænkáli lækkar streituhormón. Samkvæmt rannsóknum lækkaði streita einstaklinga sem fengu 3.000 mg af C- vítamíni á dag marktækt.

Avókadó og hnetur

Avókadó og hnetur eru saðsamt snarl sem innihleldur C-vítamín, magnesíum og B6-vítamín sem hafa góð áhrif á streitu eins og rakið er hér að ofan. Jón Magnús Kristjánsson er framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsuvernd. Hann hefur birt greinar í ritrýndum fagtímaritum og bæði komið að og stýrt mörgum þróunar og gæðaverkefnum á bráðamóttöku.

Heitir drykkir

Áhrif matarins á líðan okkar er ekki síður mikilvæg en næringarinnihald. Sem dæmi getur góður tebolli haft mikil róandi áhrif. Rannsóknir hafa meðal annars sýnt að kamillute minnkar streitu og kvíða með því að auka vellíðunarhormónin serótónín og dópamín.

Dökkt súkkulaði

Almennt eru sætindi ekki gott val til að minnka streitu en dökkt súkkulaði er undantekning. Andoxunarefnin í dökku súkkulaði geta lækkað streituhormónin auk þess sem vellíðunin sem fylgir því að borða það getur haft góð áhrif á streituna. Nauðsynlegt er þó að gæta að magninu og halda sig við súkkulaði sem inniheldur að lágmarki 60% kakóduft.

Mataræði er að sjálfsögðu aðeins hluti af þeim verkfærum sem þarf að beita til að takast á við streitu. Nægur svefn, regluleg hreyfing og góð og nærandi samskipti við aðra eru ekki síður mikilvæg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál