Kennir engum um nema sjálfri sér

Klara Óskarsdóttir sem er hér fyrir miðju er gestur Tinnu …
Klara Óskarsdóttir sem er hér fyrir miðju er gestur Tinnu Guðrúnar og Hlyns í hlaðvarspþættinum Það er von.

Klara Óskarsdóttir er þrítug kona í bata frá fíkn. Uppvaxtarárin voru góð en allt breyttist þegar hún var 12 ára og flutti til Bretlands. „Allt í einu sögðu foreldrar mínir að við værum að flytja til Bretlands og það var mikið högg,“ segir Klara í þættinum. Í Bretlandi var hún lögð í mikið einelti fyrstu tvö árin þar til hún var sett í einkaskóla fyrir stelpur.

Þegar Klara var 14 ára drakk hún í fyrsta skipti og olli það öllum miklum vonbrigðum. „Daginn eftir vissi ég að þetta væri eitthvað sem ég ætti ekki að gera, mamma grátandi en ég fann strax að ég vildi gera þetta aftur. Mér fannst þetta geggjuð tilfinning, það losnaði um hömlur,“ segir hún um tilfinningarnar sem fylgdu strax fyrsta skiptinu sem hún notaði hugbreytandi efni.

Lífið í London gekk vel, hún fór í skóla í London en neyslan þvældist alltaf fyrir henni. Þegar Klara var 21 árs flutti fjölskylda hennar til Barcelona. Á þeim tíma upplifði hún frelsi og gat notað í friði án þess að fólkið hennar þvældist fyrir henni. „Þegar ég fór í heimsókn til Barcelona fékk ég alltaf hrós fyrir að hafa grennst, það er svo skrítið þegar maður hugsar til baka.“

Neyslan versnaði hratt og áður en hún vissi af var hún ein að nota, búin að missa draumavinnuna. Þrátt fyrir allt var Klara fórnarlamb aðstæðna, að hennar mati. „Maður var svo mikið fórnarlamb en samt var maður alveg kexruglaður. Ég kenni í dag engum um mína neyslu nema sjálfri mér,“ segir Klara.

Í hlaðvarpsþættinum lýsir hún paranojunni sem fylgdi neyslunni, þeirri vanlíðan og stjórnleysi sem hafði náð tökum á henni. Árið 2018 bauðst Klöru að flytja aftur til Íslands, hún var viss um að lífið myndi hefjast upp á nýtt þá. Hún flutti til foreldra sinna og byrjaði að lifa í feluleik, drakk í laumi, ein inni í herbergi. „Ég reyndi alltaf að byrja ekki á þriðju flöskunni, klára bara tvær því það var svo erfitt að fela opna flösku,“ segir Klara um drykkjuna þegar hún bjó hjá foreldrum sínum.

Árið 2019 ákvað Klara að taka edrú október. Október lengdist og þakkaði hún fyrir það þegar hún gat verið til staðar fyrir fjölskylduna sína um jólin 2019 þegar pabbi hennar greindist með heilaæxli. „Ég hætti bara, fór ekki í meðferð en það var ekki nóg. Ég áttaði mig á því seinna. Ég fór í meðferð fyrir nokkrum mánuðum núna og öðlaðist þá skilning sem ég þurfti,“ segir Klara.

Hægt er að hlusta á Það er von á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál