Fegin að tapa ekki fyrir Dönum

Kristín Eva Ólafsdóttir er keppnismanneskja fram í fingurgóma.
Kristín Eva Ólafsdóttir er keppnismanneskja fram í fingurgóma. Ljósmynd/úr einkasafni.

Gagarín ásamt Tvíhorfi arkitektum og H2E frá Lettlandi unnu til silfurverðlauna í alþjóðlegri hönnunarsamkeppni um glæpi kommúnismans. Kristín Eva Ólafsdóttir hönnunarstjóri og einn eiganda Gagarín, segir að silfurverðlaunin fyrir verkefni þeirra “Red terror“ gefi vísbendingu um styrkleika teymisins á alþjóðavísu. Japanir hnepptu  gullið í keppninni. Hún segist taka 2. sæti auðmjúklega þegar sigurinn er í höndum Japana en það hefði verið erfiðara að tapa fyrir Dönum.

„Í tilefni af 100 ára sjálfstæðisafmælis Eistlands var blásið til opinnar samkeppni um hönnun sýningar í einu alræmdasta fangelsi Eistlands, Patarei. Fangelsið var byggt sem virki á tímum Nikulásar fyrsta Rússakeisara, en varð seinna notað undir refsivist fyrir stjórnarandstæðinga hvers tíma.  

Þarna þjáðust því fulltrúar ýmissa hópa s.s. sjálfstæðissinna, kommúnista, Nasista, gyðinga og fleiri, en alltaf á ólíkum tímum eftir stjórnvöldum hverju sinni. Kommúnistar sem réðu ríkjum lengst af beittu pólitískum ógnunum og kúgunum sem jafnan eru kennd við "Red Terror" og er sá tími fyrirferðarmestur í sögu þessarar ungu þjóðar,“ segir hún og bætir við að sýningarhugmynd teymisins í þessari 5000 fermetra byggingu gekk út áð gera sögu Eistlands síðustu 100 árin skil, með áherslu á að hún skildi teiknast ljóslifandi upp fyrir fólki, en að sýningin yrði jafnframt vettvangur til skoðanaskipta um það hvert þjóðin vill stefna til framtíðar.

Í tilefni af 100 ára sjálfstæðisafmælis Eistlands var blásið til …
Í tilefni af 100 ára sjálfstæðisafmælis Eistlands var blásið til opinnar samkeppni um hönnun sýningar í einu alræmdasta fangelsi Eistlands, Patarei. Ljósmynd/Gagarín.

Getum verið djarfari að sækja verkefni

Hvaða þýðingu hafa þessi verðlaun fyrir teymið?

„Verðlaunin eru mikil viðurkenning og sýnir að við erum vel samkeppnishæf á alþjóða vísu. Að okkar mati getum við verið djarfari að sækja í svona verkefni. En við höfum verið að öðlast meira sjálfstraust undanfarin ár að sækja í stór áhugaverð verkefni utan landssteinana.“

Aðspurð um Hegningarhúsið á Skólavörðustíg sem nú stendur autt segir Kristín það klárlega áhugavert viðfangsefni að setja upp réttargæslusafn þar. „Að opna svona staði sem eru fullir af sögu, menningu og áhrifum er eitthvað sem við Íslendingar eigum að gera líka.“

 Gagarín hefur að undanförnu verið að raða inn verðlaunum að sögn Kristínar fyrir Lava eldfjallamiðstöð en sýningarhönnun var í höndum Gagarín og Basalt arkitekta. „Það verkefni var valið Project of the year, af Reykjavik Grapewine Design Awards 2018, við fengum einnig þrenn FÍT verðlaun fyrir sama verkefni en einnig er búið að tilnefna sýninguna til evrópsku hönnunarverðlaunanna í tveimur flokkum. Lava eldfjallamiðstöð á Hvolsvelli er einstaklega vel heppnuð sýning þó ég segi sjálf frá og hvet ég alla til að leggja leið sína þangað.“

Kristín mælir með Lava eldfjallamiðstöð á Hvolsvelli. Hún segir sýninguna …
Kristín mælir með Lava eldfjallamiðstöð á Hvolsvelli. Hún segir sýninguna einstaklega vel hepnaða og hvetur alla til að leggja leið sína þangað. Ljósmynd/Gagarín.

Tæknin falin á bakvið einfalt viðmót og falleg hönnun

Hvað einkennir vinnuna ykkar?

„Verkefnin sem við vinnum að eru einstaklega fjölbreytt, oft á tíðum tæknileg og gagnvirk en söguþráðurinn er lykillinn að góðri og djúpri upplifun. Við reynum að fela tæknina eins vel og hægt er þannig að þú fáir upplifunina í gegnum leik og við leitumst við að nýta okkur þá staðreynd að manninum er eðlislægt að hreyfa hluti og leika sér. Lausnirnar okkar þurfa auk þess oftar en ekki að henta öllum aldurshópum og vera aðgengilegar fyrir alla.“ 

Hvernig er að starfa sem kona í þessum karllæga iðnaði?

„Ég er mjög ánægð með það og verð að segja að ég finn ekki fyrir neinu kynjamisrétti sjálf. En auðvitað eru flestir forritarar í greininni karlar og að sama skapi eru grafískir hönnuðir í meirihluta karlar. Við finnum fyrir því að þegar við auglýsum þessi störf þá sækja fáar konur um. En ég vil hvetja konur til að skoða þennan starfsvettvang. Enda eiga þær mikið erindi í störf eins og þessi.“ 

Eitthvað að lokum?

„Samkeppnin um gesti í sýningum, söfnum og almennt afþreyingartengdum viðburðum er alltaf að aukast og því er mikilvægt að vanda til verks og huga sérstaklega að yngri kynslóðinni. Söfn og sýningar gegna mjög mikilvægu hlutverki í samfélaginu og geta stuðlað að auknum skilningi á því hvaðan við komum og hvert við stefnum. Góðar sýningar vekja áhuga, kalla fram viðbrögð og fá gesti til að spyrja sig spurninga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál