„Aukin þörf á hæfum stjórnendum“

Guðrún Snorradóttir markþjálfari er einn helsti sérfræðingur landsins í jákvæðri sálfræði. Hún hefur verið að fara inn í fyrirtæki með lausnir fyrir stjórnendur, bæði einstaklinga og hópa. Guðrún hefur þróað stjórnendaprógramm sem að byggt er upp á tveimur áherslum – jákvæðri sálfræði og markþjálfun.

Í stjórnendaprógrammi Guðrúnar er grunnurinn sjálfsþekking, samskiptahæfni og verkfæri markþjálfunar. „Ofan á það hef ég síðan bætt vinnustofum sem snúa að jákvæðri sálfræði, til dæmis þrautseigjuþjálfun, styrkleikanálgun í stjórnun, áhrif virkni-hvatningar og tilgangs í starfi.

Að draga fram bestu eiginleika manneskjunnar

„Bakgrunnur minn er úr stjórnun og mannauðsráðgjöf en áður en ég hóf störf sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi þá vann ég í 12 ár sem stjórnandi og í mannauðsráðgjöf í 3 ár. Ég útskrifaðist sem stjórnendamarkþjálfi frá Háskólanum í Reykjavík 2014 og hef starfað sem slíkur síðan þá.“

Aðspurð hvað sé að hennar mati það áhugaverðasta úr jákvæðri sálfræði er hún fljót til svars.

„Hvar á ég að byrja! Að það sé til vísindagrein sem einblínir á það að draga fram bestu eiginleika manneskjunnar byggt á rannsóknum, hvað gerir lífið þess virði að lifa því og hvernig við getum lært af þeim sem að njóta farsældar í lífinu. Þetta rannsakar jákvæða sálfræðin út frá einstaklingum, hópum og samfélögum. Enda var það brennandi áhugi minn á manneskjunni og að fá tækifæri til að nýta stjórnunarreynslu mína og fræðin til að styðja við aðra stjórnendur í vexti sem fékk mig til að leggja þetta starf fyrir mig.“

Hið fullkomna par

Hvað getur þú sagt mér um þá aðferðafræði sem þú notar til að tvinna saman markþjálfun og jákvæða sálfræði?

„Markþjálfun og jákvæða sálfræðin hafa stundum verið verið nefndar sem hið fullkomna par. Í dag er jafnvel til það sem kallast Positive psychology coaching (PPC) eða markþjálfun með áherslum jákvæðrar sálfræði. Þessi tegund markþjálfunar er byggð á rannsóknum og inngripum frá jákvæðri sálfræði en er að öðru leyti sem hefðbundin markþjálfun. Hjá markþjálfa með þessar áherslur áttu von á að fá verkefni sem beinast t.d. að auknum velfarnaði [e. well-being], mat og þjálfun styrkleika, aukinni þrautseigju, sjálfstrú, von, virkni í vinnunni og tilgangi í starfi. Markþjálfinn sér marksækjandann, þ.e. þann sem þiggur markþjálfun, sem „heila manneskju“ og allt stuðlar þetta að sjálfbærum vexti og aukinni frammistöðu hjá viðkomandi.“

Hvað geturðu sagt mér um ACC vottun og PCC vottun í markþjálfun hjá ICF (International Coaching Federation)?

„Það sem liggur þar að baki er sú reynsla sem að markþjálfinn býr yfir. Í dag eru þrjú stig á hjá vottuðum markþjálfum hjá ICF: ACC – 100 tímar að baki, PCC – 500 tímar að baki og MCC – 2500 tímar að baki sem markþjálfi. Eftir minni vitneskju þá er eingöngu einn vottaður MCC markþjálfi á Íslandi og 5 vottaðir PCC markþjálfar og ég er um þessar mundir að sækja um þá vottun og verð þá númer sex.“

Leikni og vöxtur stjórnandans

Hvernig námskeið ert þú að bjóða upp á?

„Ég hef aðallega verið að fara inn í fyrirtæki með lausnir fyrir stjórnendur, bæði einstaklinga og hópa. Ég hef þróað stjórnendaprógramm sem byggt er upp á þessum tveimur áherslum, jákvæðri sálfræði og markþjálfun þar sem grunnurinn er sjálfsþekking, samskiptahæfni og verkfæri markþjálfunar. Ofan á það hef ég síðan bætt vinnustofum sem snúa að jákvæðri sálfræði, t.d. þrautseigjuþjálfun, styrkleikanálgun í stjórnun, áhrifum virkni-hvatningar og tilgangs í starfi. Ekki má gleyma vinnustofunni um leiðbeinandi samtöl, þar sem að stjórnendur fá leiðsögn við að taka á erfiðustu starfsmannamálunum. Rauði þráðurinn í gegnum allt prógrammið er leikni og vöxtur stjórnandans og um leið hvernig hann fær verkfæri við að styðja við vöxt starfsmanna sinna. Prógrammið er sniðið eftir þörfum og áherslum fyrirtækisins og er oftast í kringum 9 mánuðir, þetta er eins og er að bera barn undir belti!

Vantar fleiri sterka leiðtoga

Um viðtökurnar segir Guðrún:

„Ummælin sem ég hef fengið eru framúrskarandi og núna liggur fyrir að meta prógrammið, það verður spennandi að fá niðurstöðurnar staðfestar með mælingum. Fyrir utan stjórnendaprógrammið þá hef ég verið að koma inn í fyrirtæki með styttri útgáfur eða námskeið á svipuðum nótum fyrir almenna starfsmenn. Samstarfaðilar mínir eru nokkrir og má þá helst nefna Endurmenntun, Háskóla Reykjavíkur og Dokkuna. Eitt af vinsælustu námskeiðum Dokkunnar hefur verið „Leiðbeinandi samtöl“ og er kominn tími á það aftur þann 23. janúar komandi. Nánari upplýsingar má finna á www.dokkan.is“

Hver er að þínu mati helsta áskorunin í fyrirtækjarekstri á Íslandi?

„Fyrir utan þessar hefðbundnu, þar á meðal fjórðu iðnbyltinguna, áhrif aldamótakynslóðarinnar, sem og ekkert atvinnuleysi og örar tækniframfarir þá vil ég sérstaklega nefna aukna þörf á stjórnendum með framúrskarandi samskiptahæfileika, háa tilfinningagreind og hæfileika til að auka sjálfræði starfsmanna sinna. Okkur vantar fleiri sterka leiðtoga.“

Auðvelt að nálgast sérfræðinga

Þar sem þú ert einn helsti sérfræðingur landsins í jákvæðri sálfræði og formaður félags um jákvæða sálfræði á Íslandi, getur þú sagt mér hverjir eru helstu samstarfsfélagar þínir á erlendri grundu?

„Núna er ég formaður félags um jákvæða sálfræði á Íslandi, lítinn en vaxandi hóp áhugafólks og sérfræðinga um jákvæða sálfræði. Ég hef verið viðloðandi fagið síðan sumarið 2009 en það má segja að ég hafi orðið „ástfangin“ af þessari vísindalegu nálgun og aldrei litið um öxl. Það skemmtilega við þetta samfélag á alþjóðavísu er að það er frekar lítið og því auðvelt að nálgast helstu sérfræðingana með því að fara á ráðstefnurnar. Það er gaman að minnast á það að næsta evrópska ráðstefna verður n.k. sumar í Búdapest. Það er hægt að nálgast nánari upplýsingar um hana á facebook-síðu félagsins: félag um jákvæða sálfræði eða á heimasíðu evrópsku samtakanna sem er svohljóðandi: ecpp2018.akcongress.com

Síðan er auðvitað hægt að gerast félagsmaður og taka þátt í skemmtilegum félagsskap og komast á spennandi fræðslufundi“.

Hvað ertu svo að fást við þessa dagana?

„Ég er að vinna að mastersritgerðinni minni sem mun fjalla um mat á stjórnendaprógramminu mínu. Einnig er ég að sækja um PCC vottun sem markþjálfi og hlúa að fyrirtækinu mínu. Einnig er í pípunum samstarf við erlenda aðila á þessum vettvangi. Sem sagt, nóg að gera en alltaf gaman.

„Ég hef það markmið að snerta líf sem flestra með verkfærum jákvæðrar sálfræði og markþjálfunar. Það er því langtímamarkmið að fara með prógrammið mitt til útlanda, jafnvel að byrja á því að stefna á Norðurlöndin. Eins og sakir standa er af nægu að taka á íslenskum markaði.

Það eru svo mikil forréttindi að fá að starfa við það sem maður elskar. Ég er blessuð í bak og fyrir!“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál