Stærsta lofthreinsiver í heimi opnað á Íslandi

Mammoth, stærsta lofthreinsiver heims fangar koltvísýring úr andrúmslofti og breytir …
Mammoth, stærsta lofthreinsiver heims fangar koltvísýring úr andrúmslofti og breytir í stein með tækni Carbfix. Ljósmynd/Aðsend

Í gær opnaði stærsta lofthreinsiver í heimi í Jarðhitagarðinum á Hellisheiði. Hefur hreinsiverinu verið gefið heitið Mammoth en það er svissneska fyrirtækið Climeworks sem starfrækir það.

Lofthreinsiverið er hannað til að fanga allt að 36.000 tonn af koltvísýringi (CO2) á ári sem er síðan dælt niður og bundinn í jarðlög með tækni Carbfix. Á Íslandi starfar Climeworks í samstarfi við Carbfix, um bindingu koltvísýringsins sem Climeworks fangar, og Orku náttúrunnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Climeworks.

Tífalt stærri en fyrri stöðin

„Climeworks notar einungis endurnýjanlega orku til að starfrækja ver sín og á Íslandi starfar fyrirtækið í samstarfi við Orku náttúrunnar, sem sér þeim fyrir hita og rafmagni, auk þess að eiga í nánu samstarfi við Carbfix sem sér um niðurdælingu og bindingu þess koldíoxíðs sem fangað er. Ferli Climeworks og Carbfix eru bæði sannreynd og vottuð af þriðja aðila,“ segir í tilkynningunni.

Fram kemur að þetta sé önnur stöð Climeworks á Íslandi en Mammoth er tíu sinnum stærri en sú fyrri sem ber heitið Orca.

Climeworks hóf byggingu á Mammoth í júní 2022. Lofthreinsibúnaðinum verður komið fyrir í áföngum en nú hefur 12 af 72 föngunareiningum verið komið fyrir og munu fleiri bætast við í ár.

Mikilvægt skref

„Opnun Mammoth er mikilvægt skref í vexti og þróun Climeworks, en markmið okkar er að fanga megatonn af koltvísýringi árið 2030 og gígatonn árið 2050. Opnunin í dag er skýrt dæmi um fjárfestingu okkar í áframhaldandi rannsóknum og þróun til að bæta tækni okkar og auka skilvirkni í gegnum starfsemi við raunaðstæður.

Climeworks vinnur nú að því að byggja upp röð lofthreinsivera og er langstærst á markaði af þeim fyrirtækjum sem sérhæfa sig í því að fanga koltvísýring beint úr andrúmslofti,“ er haft eftir Jan Wurzbacher, annar tveggja stofnenda og framkvæmdastjóra Climeworks, í tilkynningunni.

Carbfix stefnir á frekara samstarf

Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastjóri Carbfix, segir að nauðsynlegt sé að sýna áræðni og kraft í uppbyggingu sem þörf er á til að takast á við hækkandi hitastig Jarðar.

„Við stefnum á frekara samstarf með Climeworks í framtíðinni bæði innanlands og utan með það að markmiði að fanga og binda CO2 á þeim skala sem loftslagsmarkmið krefjast,“ er haft eftir Eddu.

Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastjóri Carbfix.
Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastjóri Carbfix. Ljósmynd/Sigurður Ólafur Sigurðsson

Kjörlendi fyrir nýsköpunarfyrirtæki

Árni Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, segir að fyrirtækið sé stolt af því góða samstarfi sem ríkir á milli fyrirtækjanna.

„Við hjá Orku náttúrunnar erum stolt af okkar góða samstarfi við Climeworks og að hafa fengið að taka þátt í vegferð þeirra í Jarðhitagarði ON. Þar er kjörlendi fyrir nýsköpunarfyrirtæki að vaxa og dafna þar sem þau hafa aðgang að endurnýjanlegum auðlindum og sjálfbæru hringrásarhagkerfi. Við hlökkum til að vera hluti af áframhaldandi vegferð Climeworks í átt að grænni framtíð,“ er haft eftir Árna í tilkynningunni.

Árni Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar.
Árni Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert