Suðurafrískt barn „nánast læknað“ af HIV

Flestir þurfa meðferð hvern dag til að koma í veg …
Flestir þurfa meðferð hvern dag til að koma í veg fyrir að veiran eyðileggi ónæmiskerfið og valdi alnæmi. Með því að rannsaka hvernig barnið er enn varið geta læknar þróað ný lyf eða bólusetningu til að koma í veg fyrir HIV. AFP

Níu ára barn sem fæddist með HIV-veiruna, hefur stærstan hluta ævi sinnar til þessa verið án þess að fá nokkra meðferð við veirunni, að sögn suðurafrískra lækna. Barnið, sem nýtur nafnleyndar, gekk í gegnum langa meðferðarlotu rétt eftir fæðingu, en hefur sl. átta og hálft ár verið án nokkurra einkenna eða vísbendinga um virka veiru.

Flestir þurfa meðferð hvern dag til að koma í veg fyrir að veiran eyðileggi ónæmiskerfið og valdi alnæmi. Fjallað er um málið á vef BBC sem segir að með því að rannsaka hvernig barnið er enn varið geti læknar þróað ný lyf eða bóluefni til að koma í veg fyrir HIV.

Barnið fékk sýkinguna frá móður sinni í kringum fæðingu þess, árið 2007. Þá voru þau bæði með mikið af veirunni í blóði sínu. Fjöllyfjameðferð svo skömmu eftir smitun var ekki hefðbundin aðferð á þessum tíma en engu að síður fór barnið í gegnum slíka tilraunameðferð, aðeins níu vikna gamalt.

Magnið af veirunni hætti að greinast í líkama barnsins og var meðferð lokið eftir 40 vikur. Ólíkt öllum öðrum sem tóku þátt í tilrauninni þá hefur veiran ekki greinst aftur í líkama barnsins og er fjölskylda þess sögð vera himinlifandi.

Meðferð á borð við þessa, þar sem ráðist er á veiruna áður en hún nær að fyllilega að festa sig í líkamanum, hefur í tveimur öðrum tilraunum verið tengd því að veiran hverfi úr blóði einstaklings. Annars vegar í Bandaríkjunum, þar sem 27 mánuðir liðu áður en HIV-veiran fannst aftur í blóði barnsins, og hins vegar í Frakklandi þar sem viðkomandi hefur í dag lifað í 11 ár án meðferðar.

Dr. Avy Violari, stjórnandi barnalækningarannsókna í Perinal HIV-rannsóknardeildinni í Jóhannesarborg í Suður-Afríku, segir ekki líklegt að fjöllyfjameðferðin ein og sér leiði til bata. „Við vitum í rauninni ekki af hverju þetta barn náði slíkum afturbata, en við höldum að það sé annaðhvort tengt erfðum eða ónæmiskerfi þess,“ segir Violari.

Dr. Anthony Faci, stjórnandi Alþjóðlegu stofnunarinnar um ofnæmi og smitsjúkdóma, sagði: „Það er enn þörf á frekari rannsóknum til að komast að því hvernig eigi að framkalla langtímaafturbata í sýktum börnum.“

„Þetta nýja tilvik styrkir aftur á móti von okkar um að með því að meðhöndla börn, sýkt af HIV, snemma í byrjun bernsku getum við hlíft þeim við byrðinni af ævilangri meðferð og afleiðingum langtímavirkjunar á ónæmiskerfinu, sem fylgir oftast HIV-sjúkdómnum,“ segir Faci. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert