Frumgerð nýrrar ofurtölvu tilbúin

Merki Hewlett Packard við höfuðstöðvar fyrirtækisins í Kaliforníu.
Merki Hewlett Packard við höfuðstöðvar fyrirtækisins í Kaliforníu. AFP

Tölvufyrirtækið Hewlett Packard Enterprise er skrefi nær því að ljúka við ofurtölvu sem kallast Vélin en hún hefur verið í undirbúningi frá árinu 2014.

Í dag var tilkynnt að frumgerð af tölvunni, sem er sérstaklega hönnuð fyrir stór gagnasöfn, er tilbúin.

Í frumgerðinni er notast við minni sem getur geymt og rannsakað á örskammri stundu risavaxin gagnasöfn, jafnvel ótakmarkað magn upplýsinga, að því er kemur fram í Business Insider

Tölvan hefur að geyma 160 terabæta minni, sem nóg til að geyma og rannsaka hverja einustu bók á bókasafni bandaríska þingsins fimm sinnum, að sögn fyrirtækisins.

Minnið á eftir að stækka mun meira. Sérfræðingar Hewlett Packard Enterprise telja að þeir geti byggt vél sem nái upp í 4.096 „yottabæt“ sem er nógu mikið til að geyma 250 þúsund sinnum öll þau gögn sem eru núna geymd í heiminum.

Meg Whitman yfirmaður Hewlett Packard.
Meg Whitman yfirmaður Hewlett Packard. AFP

Vélin getur núna „geymt allar stafrænar heilbrigðisupplýsingar um hverja einustu manneskju á jörðinni, allar upplýsingar frá Facebook, ferðir allra sjálfsstýrandi bifreiða Google og öll gögn frá geimferðum á sama tíma,“ samkvæmt því sem yfirmaður Hewlett Packard Enterprise, Meg Whitman, skrifaði á bloggsíðu sinni.

„Engin önnur tölva á jörðinni hefur yfir að ráða svona miklu gagnamagni á einum stað á sama tíma. Og þetta er bara frumgerðin okkar,“ skrifaði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert