Hefnigjarn tölvuspilari sagður á bak við árás

Stór netfyrirtæki eins og Twitter lentu í miklum vandræðum í …
Stór netfyrirtæki eins og Twitter lentu í miklum vandræðum í síðasta mánuði þegar álagsárás var gerð á nafnaþjónustufyrirtæki þeirra. AFP

Sérfræðingur í tölvuöryggi segir að ósáttur tölvuleikjaspilari hafi að líkindum staðið að baki stórri tölvuárás sem lamaði fjölda vefsíðna í síðasta mánuði. Hann hafi viljað taka niður leikjasíðu, mögulega Playstation Network, vegna persónulegrar óvildar í garð hennar. 

Netárásin var gerð 21. október en hún varð til þess að viðskiptavinir margra stærstu netfyrirtækja heims eins og Twitter, Netflix, Spotify og Amazon áttu í mestu vandræðum með að tengjast þjónustunni. Um svokallaða álagsárás (DDos) var að ræða sem beindist að fyrirtækinu Dyn sem veitir svonefnda nafnaþjónustu (DNS) fyrir fjölda fyrirtækja.

Frétt Morgunblaðsins: Nótt heimilistækjanna

Dale Drew, öryggissérfræðingur hjá Level 3 Communications, sem fylgdist grannt með árásinni sagði bandarískri þingnefnd í dag að tölvuþrjóturinn hefði leigt svonefnt bottanet (botnet), net nettengdra tölva, til að framkvæmda árásina. Með kröftugu spilliforriti sem nefnist Mirai náði þrjóturinn valdi á um 150.000 nettengdum tækjum eins og myndavélum, ljósaperum og heimilistækjum svonefndu alneti hluta, til að lama kerfi Dyn með netumferð. Það hægði á allri umferð.

Þrjóturinn hafi viljað taka niður tiltekna leikjasíðu vegna persónulegrar óvildar í garð hennar en Drew vildi ekki nefna síðuna. Wall Street Journal hefur hins vegar eftir heimildamönnum að það hafi verið Playstation Network, vefþjónusta leikjatölvu Sony.

Upphaflega var óttast að erlendir tölvuþrjótar hefðu staðið að baki árásinni. Varaði Drew við því að auðvelt væri fyrir tölvuþrjóta að komast yfir lykilorð nettengdra tækja sem eigendurnir gætu jafnvel ekki breytt. Taka þyrfti á öryggi tækja sem tengjast netinu.

Frétt Mbl.is: Twitter og Netflix óvirkt eftir netárás

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert