Samfylkingin í Hafnarfirði kynnir stefnumál sín

„Við leggjum höfuðáherslu á að halda áfram á sömu braut og vinna hér í sátt og samkomulagi við íbúana," segir Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar og efsti maður á framboðslista Samfylkingarinnar í bænum, fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Samfylkingin í Hafnarfirði kynnti kosningastefnumál sín á blaðamannafundi í gær, undir yfirskriftinni: Bjart framundan.

Lúðvík sagði af því tilefni að miklir framgangstímar hefðu verið í Hafnarfirði á því kjörtímabili sem nú væri að ljúka. Mikil uppbygging hefði átt sér stað á nýjum atvinnusvæðum og íbúðasvæðum. Þá hefði íbúum fjölgað um allt að 4% á síðustu árum, og væru nú um 23 þúsund. "Þetta er fyrst og fremst því að þakka að gott samkomulag hefur verið í bænum, ekki bara í bæjarstjórn heldur líka við bæjarbúa," segir hann og bætir við: "Við höfum lagt áherslu á lýðræðisþáttinn í stjórnsýslunni og gott samráð við bæjarbúa."

Ellefu manns eru í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Þar af eru nú sex fulltrúar S-lista, Samfylkingarinnar, og fimm fulltrúar D-lista, Sjálfstæðisflokks.

Vilja þráðlaust netsamfélag

Lúðvík segir að Hafnarfjörður hafi á síðustu árum komið fram með nýjungar í þjónustu við íbúana, til dæmis með niðurgreiðslu á æskulýðs- og íþróttastarfi barna. "Við viljum stíga ný skref í þeim efnum og niðurgreiða, með sama hætti, líkamsrækt og heilsurækt fyrir eldri borgara í Hafnarfirði. Jafnframt viljum við tryggja þeim ókeypis aðgang að þjónustu og stofnunum í bæjarfélaginu." Það vilja Samfylkingarmenn gera með því að gefa út svokölluð vildarkort fyrir aldraða í Hafnarfirði, sem gildi m.a. að söfnum, íþrótta- og sundstöðum og hjá almenningsvögnum.

Lúðvík segir að Samfylkingarmenn stefni einnig að því að Hafnarfjörður verði þráðlaust netsamfélag, opið öllum íbúum. "Þetta er almannaþjónusta sem við teljum að íbúarnir eigi að eiga aðgengi að."

Í öldrunarmálum segjast Samfylkingarmenn m.a. vilja hefja byggingu nýs hjúkrunarheimilis á Völlum. Þeir segjast þó leggja áherslu á að aldraðir geti búið á eigin heimilum eins lengi og þeir geti og kjósi sjálfir. "Í því skyni verður félagsleg heimaþjónusta aukin markvisst á kjörtímabilinu," segir m.a. í stefnuskránni.

Í skólamálum vilja Samfylkingarmenn m.a. að heilsdagsskólinn verði efldur og að tónlistarnám, íþróttir og æskulýðsstarf verði fellt inn í starfið.

Í leikskólamálum vilja þeir að öllum börnum verði tryggð leikskólavist frá átján mánaða aldri. Þá vilja þeir fjölga rýmum fyrir enn yngri börn á leikskólum bæjarins. Lúðvík segir að öflugt dagforeldrakerfi sé í bænum og að Hafnarfjörður hafi verið fyrst sveitarfélaga til að niðurgreiða þá þjónustu verulega. "En við viljum líka koma með nýjar leiðir, þannig að það séu fleiri valkostir í boði, en bara dagforeldrakerfið," segir hann; þess vegna vilji þeir fjölga rýmum fyrir yngstu börnin.

Í skipulagsmálum segjast Samfylkingarmenn vilja tryggja áfram fjölbreytt framboð íbúða- og atvinnulóða og í umhverfismálum leggja þeir m.a. áherslu á að háspennulínur, sem eru í nálægð við íbúðahverfi, verði grafnar í jörð. Þá vilja þeir skoða möguleika á því að breyta fyrirkomulagi sorphirðugjalds, þannig að greitt verði ákveðið gjald fyrir hverja tunnu, sem er í notkun.

arna@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert