Sigurvin kom fiskibáti til aðstoðar

Um borð í björgunarskipinu Sigurvini sem kom grásleppubát til aðstoðar …
Um borð í björgunarskipinu Sigurvini sem kom grásleppubát til aðstoðar í dag. Ljósmynd/Landsbjörg

Bjögunarskipið Sigurvin á Siglufirði dró fiskibát að bryggju á Siglufirði eftir hádegi í dag eftir að net sem var verið að draga inn festist í skrúfu bátsins.

Í tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu segir að báturinn hafi verið á grásleppuveiðum í mynni Héðinsfjarðar. Bátsverjar voru að draga net þegar það óhapp varð að netið sem verið var að draga fór í skrúfu bátsins og komust þeir hvergi.

Björgunarskipið Sigurvin var kallað út og hélt til aðstoðar rétt eftir klukkan 12 og var komið að bátunum um klukkan 12.30. Bátsverjar höfðu þá náð að skera netið frá skrúfunni svo báturinn var ekki lengur fastur við netið, en dræsa sat föst enn í skrúfu bátsins. Vel gekk að koma tógi á milli til dráttar.

Í kjölfarið var báturinn dreginn inn til Siglufjarðar, að bryggju þar sem hægt var að taka hann upp og skera úr skrúfunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert