Rúmar 500 milljónir í ferðamannastaði

90 milljónum króna verður varið í uppbyggingu við Stuðlagil.
90 milljónum króna verður varið í uppbyggingu við Stuðlagil. mbl.is/Jón Pétur

Menningar- og viðskiptaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, hefur úthlutað 538,7 milljónum króna úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Fjárhæðin mun dreifast á ferðamannastaði víðs vegar um landið.

Haft er eftir Lilju í tilkynningu að styrkurinn sé í samræmi við ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030 sem hún hefur lagt fyrir Alþingi.

Hljóta 90 milljónir hvor

Ferðamannastaðirnir Stuðlagil og Múlagljúfur hljóta hæstu styrkina í ár eða 90 milljónir hvor. Með styrknum er verið að stuðla að uppbyggingu Stuðlagils og uppbyggingu gönguleiðar og áningarstaðar á vegum Sveitarfélagsins Hornafjarðar við Múlagljúfur. 

Þriðji hæsti styrkurinn, rúmar 52 milljónir króna, fer í uppbyggingu áningarstaðar með aðgengi fyrir alla við Kúalaug í Reykhólahreppi. 

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur úthlutað 538,7 milljónum króna …
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur úthlutað 538,7 milljónum króna úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

7,7 milljarðar frá 2012

Alls bárust 125 umsóknir um styrki. Af innsendum umsóknum voru 31 ekki talinn uppfylla formkröfur sjóðsins eða falla utan verksviðs hans. Fjórar umsóknir voru dregnar til baka.

Stjórn framkvæmdasjóðsins lagði til að 29 verkefni yrðu styrkt og féllst Lilja á tillögur stjórnarinnar. 

„Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur valdið straumhvörfum í uppbyggingu ferðamannastaða undanfarin ár. Frá árinu 2012 hafa yfir 900 verkefni hlotið styrk úr sjóðnum fyrir samtals 7,7 milljarða króna. Er hér um skynsamlegar fjárfestingar til lengri tíma að ræða, sem treysta undirstöður ferðaþjónustunnar sem lykilatvinnugrein þegar kemur að verðmæta- og gjaldeyrissköpun fyrir þjóðarbúið,“ er haft eftir Lilju í tilkynningu. 

Hægt er að sjá öll verkefnin sem hlutu styrk á gagnvirkri kortasjá hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert