Nýti byggingaröryggisgjald til brunavarna

Mörg minni slökkvilið á landinu berjast í bökkum fjárhagslega og …
Mörg minni slökkvilið á landinu berjast í bökkum fjárhagslega og vill Félag slökkviliðsstjóra nýta hluta byggingaröryggisgjalds til brunavarna. mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir

Æskilegt væri að mati Félags slökkviliðsstjóra að stjórnvöld nýttu hluta af tekjum sínum af byggingaröryggisgjaldi til að efla brunavarnir í landinu og samstarf slökkviliða.

Kom þetta fram á aðalfundi félagsins í Hveragerði undir marslok, eins og greint er frá í frétt þess þar sem enn fremur segir af því að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi lagt til að slökkvilið geti sótt fjármagn úr sameiginlegum sjóði sem fjármagna mætti með byggingaröryggisgjaldinu en fulltrúar brunavarnasviðs HMS sátu fundinn einnig.

Gæti sameiginlegur sjóður, að mati Félags slökkviliðsstjóra, nýst smærri slökkviliðum á landsbyggðinni sem erfitt eiga með að sinna lögbundnum verkefnum vegna takmarkaðrar fjármögnunar.

Vel búinn bíll á sjö-átta ára fresti

Byggingaröryggisgjald hét áður brunavarnagjald og nemur 0,045 prómillum af vátryggingarfjárhæð brunatrygginga fasteigna. Hefur árleg innheimta gjaldsins frá árinu 2017 numið á bilinu 450 til 660 milljónum króna.

„Slökkviliðsstjórarnir ræddu mikilvægi þess að byggingaröryggisgjaldið nýttist til þess að efla brunavarnir í landinu og samstarf sveitarfélaga um rekstur slökkviliða, sér í lagi til að mæta erfiðum rekstraraðstæðum og auknum áhættum á ákveðnum svæðum. Hingað til hefur gjaldið ekki runnið til slökkviliðanna,“ segir svo.

Einar Strand, slökkviliðsstjóri í Stykkishólmi og talsmaður þessa máls, segði það vera lífsnauðsyn fyrir fólkið að koma peningunum sem gjaldið innheimtir til slökkviliðanna og styrkja rekstur þeirra.

„Það er dýrt að reka slökkvilið og þetta snýst um öryggi allra landsmanna,“ er haft eftir Einari. „Ef við setjum þessa upphæð í samhengi að þá myndi hún duga til að kaupa einn vel búinn slökkvibíl á hverja einustu slökkvistöð á landinu á sjö til átta ára fresti. Þess í stað fer þessi upphæð beint í ríkissjóð,“ sagði hann enn fremur.

Styðja þurfi betur við slökkviliðin

Árið 2020 lagði starfshópur á vegum HMS það til, að tekjur af gjaldinu færu í svonefndan Brunamálasjóð sem hefði það hlutverk að koma að fjármögnun samræmingarverkefna og eftir atvikum sameiningum slökkviliða. Með því væri hægt að efla starfsemi minni slökkviliða um allt landið.

Hafi stofnunin tekið undir þetta í skýrslu sinni um stöðu slökkviliða árið 2022 þar sem fram hafi komið að hluti slökkviliða á landsbyggðinni gæti ekki sinnt öllum lögbundnum verkefnum.

„Niðurstöður úttekta HMS benda til þess að styðja þurfi betur við slökkviliðin með auknum fjárveitingum, hvetja til aukins samstarfs og jafnvel sameiningar slökkviliða.

Með fjárhagslegum stuðningi í gegnum sameiginlegan sjóð væri hægt að jafna aðstöðumun sveitarfélaga sem hafa takmarkaða fjármuni til ráðstöfunar fyrir lögbundin verkefni slökkviliða. Sömuleiðis gæti slíkur sjóður stutt við lítil slökkvilið í tilfellum þar sem sameining er ekki möguleg, t.d. sökum landfræðilegra aðstæðna. Þannig gæti sjóðurinn veitt nauðsynlegan fjárhagslegan stuðning til að efla slökkvilið landsins og jafnframt virkað sem hvati fyrir aukna samvinnu og mögulegar sameiningar þeirra,“ segir að lokum.

Vilja nýta byggingaröryggisgjald

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert