Helgi Áss með vinningsforskot

Helgi Áss og Héðinn Steingrímsson.
Helgi Áss og Héðinn Steingrímsson. Ljósmynd/Aðsend

Stórmeistarinn Helgi Áss Grétarsson er í vænlegri stöðu eftir sjöundu umferð Íslandsmótsins í skák sem fram fór í dag í Mosfellsbæ.

Helgi vann kollega sinn úr stórmeistarastétt, Hannes Hlífar Stefánsson, eftir að hafa snúið á hann rétt áður en tímamörkunum fyrir 40 leik var náð, að því er segir í tilkynningu frá Skáksambandi Íslands.

Baráttan virðist nú vera á milli Helga og Vignis Vatnars Stefánssonar sem er annar með vinningi minna. Vignir gerði jafntefli við Hjörvar Stein Grétarsson í fremur litlausri skák.

Alþjóðlegi meistarinn Hilmir Freyr Heimisson er sá eini sem gæti blandað sér baráttu Helga og Hannesar eftir jafntefli við Aleksandr Domalchuk-Jonasson í dag. Hilmir hefur vinningi minna en Vignir og þarf að treysta á hagstæð úrslit í lokaumferðunum fjórum.

Áttunda umferð af ellefu fer fram á morgun og hefst kl. 15. 

Ítarlegar fréttir og upplýsingar um hvernig best sé að fylgjast með mótinu má finna á skak.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert