Jón skipar sér í hóp með Ólafi og Davíð

Stjórnmálafræðingurinn Ólafur Þ. Harðarson greinir í samtali við mbl.is hvassa …
Stjórnmálafræðingurinn Ólafur Þ. Harðarson greinir í samtali við mbl.is hvassa gagnrýni Jóns Gnarr gegn Katrínu Jakobsdóttur. Samsett mynd

Hvöss gagnrýni Jóns Gnarr gegn Katrínu Jakobsdóttur minnir helst á kosningabaráttu Ólafs Ragnars Grímssonar árið 2012 og á kosningabaráttu Davíðs Oddssonar árið 2016.

Þetta seg­ir stjórn­mála­fræðing­ur­inn Ólaf­ur Þ. Harðar­son í sam­tali við mbl.is.

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag þá sagði Jón Gnarr í hlaðvarpinu Ein pæling að framboð Katrínar væri skrýtið og absúrd, hún bæri ábyrgð á því að Bjarni Benediktsson væri orðinn forsætisráðherra og fleira.

Hin tvö skiptin enduðu með mismunandi niðurstöðu

„Yfirleitt hafa forsetaframbjóðendur í forsetakosningum verið ákaflega kurteisir í garð hvers annars. Þannig var það til dæmis 1980 og líka 1996. Fyrstu hvössu orðaskiptin sem ég man eftir voru 2012 þegar Þóra Arnórsdóttir var að mælast mjög vel gegn sitjandi forseta, Ólafi Ragnari, og þá keyrði Ólafur Ragnar í hana af mikilli hörku og gagnrýndi hana af mikill hörku.

Það skilaði Ólafi árangri, eða að minnsta kosti fór hann upp. Hitt dæmið sem ég man eftir er Davíð Oddsson 2016 þegar hann keyrði af mikilli hörku í Guðna Th. Jóhannesson í umræðum,“ segir Ólafur.

Hann segir því að einu tvö dæmin sem hann muni eftir, þar sem gagnrýnin var svona hvöss, hafi skilað mismunandi árangri. Því er ómögulegt að segja hvort að Jón Gnarr græði á þessu.

Blasti við að þessi gagnrýni kæmi fram

Hann segir það hafa blasað við að einhverjir andstæðingar Katrínar myndu reyna að hamra á því að hún bæri meinta ábyrgð á því að Bjarni Benediktsson væri orðinn forsætisráðherra. Hann hafi búist við því að þessu yrði komið á framfæri.

„Ég var bara að velta því fyrir mér með hvaða hætti því yrði komið á framfæri. Nú gerir Jón Gnarr nákvæmlega það með mjög skýrum hætti. Reyndar með sínum hætti, gerir þetta svolítið kímilega og í rauninni kurteislega – þó að þetta sé beitt gagnrýni.“

Hann segir þetta vera pólitíska gagnrýni, óháð því hvort að menn séu sammála þessari gagnrýni eða ekki.

Jón efast um heilindi Katrínar

Jón sagði í viðtalinu Katrínu greini­lega búin að vera hugsa þetta í lang­an tíma en þegar hún hafi verið spurð um mögu­legt fram­boð á Alþingi þá hafi hún ekki sagst hafa leitt hug­ann að því.

„Hitt sem hann er líka að gagnrýna er að hann er svolítið að efast um heilindi Katrínar, um að hún hafi sagt alveg rétt frá því hvenær hún hafi farið að velta fyrir sér forsetaframboði,“ segir Ólafur.

Jón að varpa fram 

Hann segir að í könnunum sem komið hafa fram um fylgi frambjóðenda þá megi sjá sameiginlegar tilhneigingar meðal stuðningsmanna frambjóðenda. Katrín sé til að mynda sterkari meðal eldri kjósenda og meðal þeirra sem styðja stjórnarflokkanna heldur en meðal þeirra sem styðja stjórnarandstöðuflokkanna.

„Núna eru þeir sem segjast ætla að kjósa stjórnarandstöðuflokkanna tæplega 70% kjósenda miðað við kannanir. Ef að nógu margir þeirra taka undir þessa gagnrýni Jóns Gnarr á Katrínu – um að hún hafi gert Bjarna Benediktsson að forsætisráðherra - þá náttúrulega er það væntanlega ekki mjög þægilegt fyrir Katrínu.“

Ólafur segir því spurninguna vera hvort muni vega þyngra; hæfnisþættir Katrínar eða neikvæðar hugmyndir um pólitíska fortíð hennar.

„Jón er að varpa upp þarna pólitískum fleti sem er líklegur til að geta verið dragbítur á fylgi Katrínar. En hins vegar það sem Katrín hefur augljóslega með sér eru hæfnisþættir og hún hefur verið mjög vinsæll stjórnmálamaður og hún hefur augljóslega mjög mikla kosti í þetta embætti.

Spurningin er svolítið eins og það var á sínum tíma með Ólaf Ragnar – sem hafði pólitíska fortíð sem mörgum var illa við – og hann var líka talinn hafa hæfnisþætti. Hjá Ólafi vigtuðu hæfnisþættirnir meira en neikvæðar hugmyndir um pólitíska fortíð.“

Á pari við gagnrýni Ólafs og Davíðs

Er þetta óvenjulega gagnrýni hjá Jóni á þessum tímapunkti?

„Ég myndi segja að hún væri á pari við þessa gagnrýni sem ég var að tala um hjá Ólafi Ragnari 2012 og Davíð Oddssyni 2016. Hún fellur eiginlega í flokk með því – hún er það hvöss. Ég myndi taka þetta þrennt sem svona hvössustu gagnrýnina sem ég man eftir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert