BÍ og SA funda í Karphúsinu í vikunni

BÍ og SA funda í Karphúsinu í vikunni.
BÍ og SA funda í Karphúsinu í vikunni. mbl.is/Golli

Fyrsti fundur Blaðamanna­fé­lags Íslands (BÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA) í Karphúsinu verður haldinn í vikunni. 

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ, segir nákvæma tímasetningu fundarins ekki liggja fyrir að svo stöddu og bíður hún þess því að ríkissáttasemjari boði til fundarins. 

Deilunni var vísað til ríkissáttasemjara þann 22. mars og var það að sögn Sigríðar Daggar vegna þess að ekki hafði gengið nógu vel að funda með SA. 

„Önnur atriði sem við munum láta reyna á“

Aðspurð kveðst Sigríður Dögg ekki hafa neina trú á öðru en að samningaviðræður muni ganga vel. 

„Við höfum góð rök fyrir okkar málflutningi og ég trúi ekki öðru en að fjölmiðlarnir og Samtök atvinnulífsins hafi skilning á því. En svo er þetta náttúrulega alltaf, eins og gefur að skilja, samningaviðræður þannig að það er algjörlega ómögulegt að vita fyrir fram hvernig þetta fer,“ segir Sigríður Dögg og bætir við: 

„En við erum með stóru línurnar úr hinum samningunum þannig að það verða svona önnur atriði sem að við munum láta reyna á heldur en kannski launaliðinn.“

Spurð hvaða áhersluatriði það verði svarar Sigríður að í hinum samningunum séu atriði sem enn á eftir að meta hvort BÍ vilji líka fá, eða hvort félagið vilji fá eitthvað annað í sína samninga. 

„Eins og til dæmis fleiri sumarleyfisdaga,“ segir Sigríður og útskýrir að um sé að ræða atriði sem á eftir að ræða nánar í samráði við samningaráð BÍ. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert