Marta María ekki á leið í forsetaframboð

Marta María, fréttastjóri Smartlandsins á Morgunblaðinu er ekki á leið í forsetaframboð og Diljá Mist segir stjórnarmeirihlutann ekki hafa leitt hugann að því hvað gerist ef Katrín Jakobsdóttir býður sig fram til embættis forseta Íslands.

Þetta kemur fram í nýjasta þætti Spursmála. Orðaskiptin um þessi mál má sjá hér að neðan.

Stutt að fara

Þú býrð á Álftanesi, það yrði styttri flutningur fyrir þig heldur en Katrínu úr blokkinni á Dunhaga. Af hverju býður þú þig ekki fram?

„Það þarf náttúrulega einhver að halda uppi lestrinum hérna á mbl. Á Smartlandinu, ferðavefnum, matarvefnum og fjölskylduvefnum og...“

En gætir þú ekki gert hvort tveggja. Þú ert ekki manneskja einhöm. Gætir þú ekki rekið Smartlandið frá Bessastöðum?

Enn er flest í móðu um það hverjir verða í …
Enn er flest í móðu um það hverjir verða í framboði til embættis forseta og hver muni bera sigur úr bítum. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Nei ég er bara óskaplega ánægð með mitt hlutskipti í lífinu og hyggst ekki breyta því og ég held að það sé svo mikilvægt að ef fólk ætlar að rækta sína eigin hamingju að vera ánægður með stað og stund akkúrat núna. Ekki að vera með eitthvað plan, b og c og d og vera einhvern veginn alltaf með annan fótinn einhversstaðar annarsstaðar. Af því að þá ertu aldrei með laserfókus á því sem þú ert að gera.“

Geysivinsæl ríkisstjórn

Talandi um laserfókus. Ég ætla að fá að taka umræðuna um Katrínu áfram. Hún situr sem forsætisráðherra í þínu umboði. Þú myndar meirihlutann í þinginu sem tryggir að hún er forsætisráðherra og leiðir þessa ríkisstjórn sem allir eru svo ánægðir með eins og kannanir sýna?

„Það er þung ábyrgð.“

Ja það er mikil ábyrgð. Hvað gerist ef Katrín Jakobsdóttir fer í forsetaframboð. Getur hún gegnt embætti forsætisráðherra í gegnum kosningabaráttuna eða verður hún að láta af embætti forsætisráðherra þegar hún lýsir yfir framboði til forseta? Munuð þið bakka hana upp meðan hún rekur kosningabaráttu sína?

„Þetta eru náttúrulega rosalegar spekúlasjónir.“

Nei.

„Ef ég ætlaði að eyða öllum mínum tíma í að spekúlera hvað ef hvað ef hvað ef þá gerði ég ekki annað.“

Ekki víst með framboð Katrínar

Hún er á leiðinni fram.

„Nja. Við veltum því fyrir okkur út af þessu og hinu og a, b og c. En það sem ég hef oftast svarað fyrir í hvers kyns viðtölum er að svara því hvernig við ætlum að bregðast við þessu ef þetta gerist. Síðast eða þarsíðast held ég að það hafi verið hvalveiðar. Hvernig lifir stjórnin þetta af og svo framvegis og framvegis. Svo koma alltaf bara einhverjar hamfarir og bjarga þessu.“

Þann 1. ágúst næstkomandi verður nýr þjóðhöfðingi Íslands settur í …
Þann 1. ágúst næstkomandi verður nýr þjóðhöfðingi Íslands settur í embætti og mun hafa aðsetur á landnámsjörðinni Bessastöðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

En þetta mun gerast innan örfárra vikna og ég held að almenningur eigi rétt á því að vita hvernig þingmenn horfi á það mál ef hún fer í framboð. Mun stjórnin lifa það af, hver tæki við sem forsætisráðherra ef Katrín léti af embætti af þessum ástæðum eða öðrum?

„Ég hef ekki heyrt neinar spekúlasjónir um þetta í þinginu ef ég á að segja þér alveg eins og er.“

Myndir þú styðja varaformann Vinstri grænna í embætti forsætisráðherra?

„Ég er bara ekki komin svona langt. Ég er rosalega upptekin af því þessa dagana að létta byrðum af litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Að aflétta jafnlaunavottun og bara með stór mál í þinginu þannig að ég hef ekki velt þessu alvarlega fyrir mér.“

En þetta er risamál?

„Já en þetta hefur í raun ekki komið á okkar borð. Rétt eins og þetta fólk sem umkringir okkur hér á myndunum.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpar flokksráðsfund VG.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpar flokksráðsfund VG. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki að velta þessu fyrir sér

Ég veit að þið eruð að velta þessu fyrir ykkur.

„Ekki alvarlega, nei. Við erum ekki að velta þessu alvarlega fyrir okkur. En það er eins með þetta og allt annað að ef það koma upp einhverjar aðstæður þá verði það oddvitarnir sem leggist yfir það og teikni upp eitthvað plan.“

Líst þér vel á Katrínu á Bessastaði, myndir þú styðja hana í forsetakjörinu?

„Ja, úff, núna komstu mér í vandræði. Mér líst rosalega vel á Katrínu sem forsætisráðherra, þannig að ég veit ekki ef ég ætla að fara að máta hana við einhver önnur embætti, landsliðsþjálfara eða forseta þá finnst mér ég vera svolítið að grafa undan því. Mér finnst hún bara fín á þeim stað þar sem hún er. Mér finnst hún hafa staðið sig vel í að halda þessu samstarfi áfram sem þú lýsir sem mjög vinsælu. Og stemningin hefur oft verið verri. Hún er bara ágæt þessa dagana.“

Ég trúi því nú mátulega, en.

Viðtalið við Diljá og Mörtu Maríu má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert