Sindri Snær fær tvö ár og Ísidór 18 mánuði

Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson við aðalmeðferð málsins í …
Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson við aðalmeðferð málsins í héraðsdómi í febrúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sindri Snær Birgisson var í dag dæmdur í tveggja ára fangelsi í hryðjuverkamálinu svokallaða. Ísidór Nathansson hlaut átján mánaða dóm. Voru þeir dæmdir fyrir brot gegn vopnalagagjöf, en sýknaðir af tilraun til hryðjuverka og hlutdeild í tilraun til hryðjuverka. Þetta kom fram í Héraðsdómi Reykjavíkur nú fyrir skemmstu. Dregst gæsluvarðhald sem hann sætti frá fangelsisdóminum.

Einnig voru gerð upptæk ýmis tæki, vopn og annar búnaður sem var í fórum mannanna.

538 dagar eru síðan lögreglan fór í aðgerðir sem enduðu með handtöku og síðar ákæru þeirra Sindra og Ísidórs. Var um aðgerðir í Mosfellsbæ og Kópavogi að ræða, en í kjölfarið  barst til­kynn­ing frá rík­is­lög­reglu­stjóra þar sem greint var frá því að fjór­ir ein­stak­ling­ar hefðu verið hand­tekn­ir „og hættu­ástandi af­stýrt“.

Í til­kynn­ing­unni sagði að menn­irn­ir hefðu verið hand­tekn­ir í tengsl­um við yf­ir­stand­andi rann­sókn embætt­is­ins á brot­um sem snéru að landráðum og brot­um gegn stjórn­skip­an rík­is­ins og æðstu stjórn­völd­um þess.

Málinu var vísað frá í fyrstu atrennu

Upphaflega var ákært í málinu í desember 2022, en þar var Sindri ákærður fyr­ir til­raun til hryðju­verka og stór­felld brot gegn vopna­lög­gjöf. Ísi­dór var ákærður fyr­ir hlut­deild í til­raun til hryðju­verka og stór­felld brot gegn vopna­lög­gjöf.

Lög­menn sögðu ákær­una vera óskýra er kæmi að hryðju­verkaliðnum. Málið var þing­fest í janú­ar árið 2023 og neituðu menn­irn­ir báðir sök er kom að hryðju­verka­hluta ákær­unn­ar.

Við þing­fest­ingu til­kynnti dóm­ari að hann myndi taka til skoðunar hvort vísa ætti ákæru­liðum er sneru að skipu­lagi hryðju­verka frá. Í kjöl­farið fór fram þing­hald þar sem það var rætt og í fe­brú­ar ákvað dóm­ari að Sindri og Ísi­dór yrðu ekki ákærðir fyr­ir und­ir­bún­ing hryðju­verka.

Héraðssak­sókn­ari kærði úr­skurð héraðsdóms til Lands­rétt­ar. Lands­rétt­ur staðfesti hins veg­ar úr­sk­urðinn.

Karl Ingi Vilbergsson saksóknari í málinu.
Karl Ingi Vilbergsson saksóknari í málinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ný ákæra gefin út

Í júní gaf héraðssak­sókn­ari síðan út nýja ákæru á hend­ur Sindra og Ísi­dóri. Karl Ingi Vil­bergs­son, sak­sókn­ari hjá embætti héraðssak­sókn­ara, sagði þá í sam­tali við mbl.is að nýja ákær­an hafi verið unn­in í sam­ræmi við leiðbein­ing­ar frá Lands­rétti.

Nú­gild­andi ákæra er tólf blaðsíðna löng og er því lýst í 64 liðum hvernig menn­irn­ir tveir ætluðu sér að fremja hryðju­verk.

Sindri var tal­inn hafa sýnt ásetn­ing til hryðju­verka „ótví­rætt í verki“ á tíma­bil­inu maí til sept­em­ber 2022. Hann hafi fram­leitt og aflað sér skot­vopna, skot­færa og íhluta í skot­vopn og sótt, mót­tekið og til­einkað sér efni um þekkta aðila sem framið hafa hryðju­verk, aðferða- og hug­mynda­fræði þeirra.

Hann var sagður hafa ætlað að fram­kvæma hryðju­verk á Íslandi með skot­vopn­um og/​eða spreng­ing­um dul­bú­inn sem lög­reglumaður.

Ísi­dór var sagður hafa veitt Sindra liðsinni í orði og verki í broti hans með því að taka þátt í og aðstoða Sindra við fram­leiðslu skot­vopna. Þá átti hann að hafa vitað um áætlan­ir Sindra um að fremja hryðju­verk og hvatt hann til þess. Ísi­dór átti að hafa aðstoðað Sindra við öfl­un lög­reglu­búnaðar og fatnaðar, miðlað til hans upp­lýs­ing­um um þekkta hryðju­verka­menn auk upp­lýs­inga um sprengju- og dróna­gerð.

Aftur vísað frá en Landsréttur vildi efnismeðferð

Aft­ur neituðu menn­irn­ir tveir sök og aft­ur var lögð fram frá­vís­un­ar­krafa í mál­inu vegna óskýr­leika ákær­unn­ar. Í októ­ber vísaði Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur síðan ákær­unni aft­ur frá.

Í októ­ber felldi Lands­rétt­ur hins veg­ar úr gildi úr­sk­urð héraðsdóms og skipaði dóm­stóln­um að taka ákær­una til efn­is­meðferðar.

Frá dómsuppkvaðningunni í dag.
Frá dómsuppkvaðningunni í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fíflaskapur“, rícin-eitur og vísanir í fjöldamorðingja

Aðalmeðferð málsins hófst 8. febrúar og stóð í fjóra daga. mbl.is fjallaði ítarlega um það sem kom fram þar, en Sindri lýsti samskiptum sínum við Ísidór meðal annars sem „fíflaskap“ og að ummæli hans hafi ítrekað verið tekin úr samhengi.

Þá sagðist Sindri „kannski bara vera fróðleiksfús“ um ástæðu þess að hafa sent Ísidór uppskrift að rícin-eitri. Þá sagði hann einnig að orð hans um fjöldamorðingjann Anders Behring Breivik þegar hann sagði „Mein fuhrer“, eða „minn foringi“ vera satíru. Sagði hann að þrátt fyrir að á sama tíma og þeir Ísidór hafi verið að framleiða og selja skotvopn hafi orð þeirra um árás verið grín.

Í skýrslutöku fyrir héraðsdómi sagði Ísidór að húmor hans og Sindra væri „viðbjóðslegur“. Hann sagði tal þeirra hafa verið ósmekklegt og einkennst af kaldhæðni sem skilaði sér illa í textaskilaboðum og að hann sæi eftir þessu. Þá sagði hann enga alvöru hafa verið á bak við skilaboð um að hann ætlaði að drepa stjórnmálamenn. „Það stafaði eng­in ógn af mér,“ sagði Ísi­dór fyr­ir dómi og bætti við: „Mik­il­mennsku­brjálæði í full­um hálf­vita“.

Játaði Ísidór jafnframt fyrir dóminum að vera einangrunarsinni og rasisti og hafa sterka skoðun á innflytjendum.

Gagnrýndu meðferð lögreglu 

Þá gagnrýndi Ísidór meðferð lögreglu á sér og að hann hafi verið kúgaður í þá þrjá mánuði sem hann var í gæsluvarðhaldi.

Tvímenningarnir viðurkenndu fyrir dómi framleiðslu á skotvopnum, en Sindri gaf þó þær skýringar að hann hefði framleitt þau svo vopnin myndu klikka.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert