„Jafnvel hörðustu naglar gráta“

Hamfarirnar og óvissan hafa reynt mikið á Grindvíkinga síðustu mánuði.
Hamfarirnar og óvissan hafa reynt mikið á Grindvíkinga síðustu mánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég held að það sé best að lýsa því þannig að jafnvel hörðustu naglar gráta þegar þeir hittast,“ segir Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, þegar hann ræðir um það samfélag sem Grindvíkingar hafa misst, vonandi aðeins tímabundið, í kjölfar þeirra hamfara sem dunið hafa yfir. 

Pétur og Halla María Svansdóttir, eigandi veitingastaðarins Hjá Höllu, settust niður með blaðamönnum Morgunblaðsins í Grindavík á dögunum. 

„Þetta er auðvitað mjög skrýtið og það hefur verið erfitt að aðlagast nýjum veruleika,“ segir
Halla og lýsir í kjölfarið þeirri miklu nálægt sem felst í samfélaginu.

Allar vegalengdir eru innan við fimm mínútur og það sama á við um vini, fjölskyldur, aðgang að verslunum og þjónustu o.s.frv. Þessi sömu aðilar hafa nú verið á víð og dreif um landið.

Áskorun fyrir sálarlíf fólks

„Að tala um atvinnulíf er hjómið miðað við það hvað þetta er mikil áskorun fyrir sálarlíf fólks. Það er tekið af þér samfélag sem þú ert alinn upp við og þekkir upp á tíu, krakkarnir fara á milli, hjóla til ömmu og afa, spila fótbolta og körfubola – svo ertu allt í einu rekald á stað þar sem þú hefur jafnvel ekki komið áður á,“ segir Pétur.

Í Hringferðarhlaðvarpi Morgunblaðsins ræða þau Pét­ur og Halla meðal ann­ars um blóm­legt líf í Grinda­vík áður en ham­far­irn­ar urðu 10. nóv­em­ber.

Hægt er að hlusta á þátt­inn í heild sinn í spil­ar­an­um hér að neðan.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert