Óvissan í upphafi erfiðust

Sólveig Ása B. Tryggvadóttir greindist með Non-Hodgkin's-eitilfrumukrabbamein fyrir ári síðan. Nokkrum vikum áður hafði hún eignast sitt annað barn, en hún var farin að finna fyrir ákveðnum einkennum á meðgöngunni, vísbendingum um krabbameinið, án þess þó að átta sig á því að um eitthvað alvarlegt væri að ræða.

„Ég fór að finna fyrir bólgnum eitlum þegar ég var kasólétt og byrjaði að kveinka mér í mæðraverndinni, en þetta var erfitt því einkenni þessa krabbameins eru svolítið þau sömu og koma fram þegar kona er ófrísk,“ segir Sólveig Ása í samtali við mbl.is.

Hún segist í raun ekki hafa fengið nógu góða áheyrn í upphafi, eins og oft vill gerast þegar fyrstu einkenni koma fram. Þegar eitlarnir voru hins vegar enn bólgnir eftir að dóttir hennar fæddist, þá fór hún að þrýsta á að málið yrði kannað betur. Fljótlega kom í ljós að eitthvað alvarlegt var að og þá fóru hjólin að snúast. Þegar svo krabbameinið greindist var það frekar langt gengið og hafði dreift sér víða.

Sólveig Ása ásamt börnunum sínum, Unu Þórdísi og Tryggva, sem …
Sólveig Ása ásamt börnunum sínum, Unu Þórdísi og Tryggva, sem vildi alveg eins klippingu og mamma sín.

Þakklát fyrir að greiningin kom ekki fyrr

Að ákveðnu leyti er hún aftur á móti þakklát fyrir að hafa ekki greinst fyrr, enda hefði það líklega engu breytt í hennar tilfelli þar sem krabbameinið reyndist hægvaxandi.

„Ég er í raun þakklát fyrir að hafa gengið í gegnum mína meðgöngu og eðlilega fæðingu og fengið nokkrar vikur með dóttur minni og svo fara í þennan kafla. Maður þarf að reyna að taka allt það jákvæða.“

Í greiningarferlinu sjálfu leitaði hún strax til Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein, og aðstandendur þess. Þar komst hún í mikilvæga endurhæfingu samhliða krabbameinsmeðferðinni og fékk ómetanlegan jafningjastuðning.

Sólveig Ása ætlar nú að gefa til baka og hleypur 10 kílómetra til styrktar Ljósinu í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardaginn. Hún er hluti af hópi fimmtán kvenna á aldrinum 20 til 45 ára, Ljósasystrum, sem allar hafa nýtt sér þjónustu Ljóssins og ætla að hlaupa saman á laugardaginn til að safna áheitum.

Spjall um praktísk atriði skiptir líka máli 

Sólveig Ása bendir á að endurhæfing byrji strax við greiningu, en ekki að meðferð lokinni. Það skipti miklu máli byrja bæði í andlegri og líkamlegri endurhæfingu strax; fara í ræktina í Ljósinu, hitta iðjuþjálfa og sálfræðinga.

„Það er svo mikilvægt þegar þú ert að fá inn í þig þessi lyf, sem eru bara eitur því það er verið að drepa frumur, að þú hreyfir þig með. Svo líkaminn vinni hraðar úr því. Allar rannsóknir sýna það og það er mikið talað um það í krabbameinsfræðslu. Það kom mér á óvart.“

Andlegi stuðningurinn sem hún fékk í Ljósinu skipti hana líka miklu máli í þessu erfiða ferli. Og að geta spjallað við einstaklinga í svipuðum sporum um praktísk atriði eins og lyf, hármissi, hárkollur, augabrúnir og matarlyst, svo eitthvað sé nefnt.

„Þetta eru litlir en samt stórir og mikilvægir hlutir og þar kemur Ljósið mjög sterkt inn.“

Laus við krabbameinið 

Sólveig Ása hefur lokið krabbameinslyfjameðferð og er laus við krabbameinið, en hún fékk þær gleðifréttir eftir að hafa farið í jáeindaskanna í janúar. Hún er þó enn í svokallaðri viðhaldsmeðferð.

„Nú er bara verið að hreinsa allt út og viðhalda. Ég er búin að fara í gegnum „hardcore“ chemo-lyfjameðferðina þar sem maður missir hárið og er alveg ómögulegur. Ég er farin að fá hár aftur og er öll að koma til. Núna er ég í endurhæfingu og úrvinnslu eftir þetta áfall,“ útskýrir hún.

Leið eins og hún væri í leikriti

Þrátt fyrir að Sólveig Ása hafi fundið fyrir ákveðnum einkennum á sínum tíma, sem hún taldi þurfa að kanna frekar, þá hvarflaði aldrei að henni að hún gæti verið með krabbamein.

„Nei, maður er svo ódauðlegur. Þetta var mjög súrrealískt á þessum tíma þó mér þyki þetta ósköp eðlilegt í dag. Þó ég hafi eiginlega verið búin að fá fréttirnar, þá samt hugsaði ég: Það getur ekki verið. Maður heyrir sögur af öðrum en býst aldrei við að lenda í þessu sjálfur.“

Sólveig Ása ásamt Gretti Heimissyni manninum sínum. Hann er líka …
Sólveig Ása ásamt Gretti Heimissyni manninum sínum. Hann er líka hlaupari en þarf að vera með börnin á laugardaginn.

Áfallið var því mikið þegar greiningin kom.

„Maður meðtekur þetta ekkert einn, tveir og bingó. Það tekur tíma. Manni líður eins og maður sé í einhverju leikriti og trúir þessu ekki,“ segir Sólveig Ása.

„Það sem er erfiðast í upphafi er óvissan. Heilinn ræður ekki vel við að vera í svona óvissu. Þú veist ekkert hvað er að fara að gerast. Þú veist að þetta verður langur og erfiður tími en það getur enginn sagt þér hvernig þín veikindi eða þín upplifun af því verður. Þess vegna er Ljósið svona mikilvægt.“

Hleypur í fyrsta skipti maraþon

Gengið hefur vonum framar hjá Ljósasystrum að safna áheitum og eru þær mjög þakklátar fyrir stuðninginn

„Okkur þykir svo vænt um Ljósið og við höfum einblínt jafningjastuðning. Það félagslega í þessu er svo risastórt. Að tengjast einhverjum sem er að ganga í gegnum það sama því þetta er svo lífsbreytandi að lenda í þessu.“

Ljósið grípur líka aðstandendur sem Sólveig segir ekki síður mikilvægt, enda snerti það oft marga þegar einn úr fjölskyldunni greinist. Boðið er upp á ýmiss konar námskeið og stuðning sem fjölskylda hennar hefur nýtt sér.

Bróðir hennar, Heimir Tryggvason, ætlar líka að hlaupa fyrir Ljósið, en hann hleypur í fyrsta skipti maraþon á laugardaginn.

Hann strengdi áramótaheit í árlegu áramótapartýi um síðustu áramót en Sólveig Ása hafði skömmu áður lokið sinni sjöttu lyfjagjöf. Hún var þá öll ómöguleg að eigin sögn, leið ekki vel og var meyr vegna áramótanna.

„Mér þykir mjög vænt um það. Hann hefur líka hjálpað mér mikið í þessu ferli. Hann hefur tekið eldri strákinn minn og boðið okkur í mat, og í raun öll fjölskyldan. Þau vilja öll gefa til baka því Ljósið hefur reynst mér svo vel.“

Hér er hægt að heita á Sólveigu Ásu

Hér er hægt að heita á Heimi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert