Katrín vill breiða sátt um áfengið

Katrín Jakobsdóttir telur að breiða sátt þurfi að nást um …
Katrín Jakobsdóttir telur að breiða sátt þurfi að nást um umgengni að áfengi. mbl.is/Arnþór

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kallar eftir breiðu samtali alls þjóðfélagsins um það í hvaða farveg umgengni áfengis eigi að vera. Hún segist sammála því að breytinga á regluverki sé þörf í ljósi breyttra viðskiptahátta. Ekki sé þó nóg að vinna málið í einu ráðuneyti heldur þurfi breiða sátt um málið.

Ekki nóg að gera einfaldar lagabreytingar 

„Það er ekki nóg að gera einfaldar lagabreytingu í þessu máli. Þetta er miklu stærra en það og ég kalla eftir því að við köllum alla að borðinu til umræðu um þessi mál. Hér hefur náðst góður árangur í forvörnum og hluti af þeim árangri er hvernig við stýrum aðgengi að áfengi. Því áfengi lýtur allt öðrum lögmálum en matvara og mér er til efa að það yrði sátt um það hér á landi að matvöruverslanir færu að selja áfengi. En að sama skapi eru viðskiptahættir breyttir og netið er orðið hluti af okkar raunveruleika. Því kalla ég eftir þessari samræðu sem er ekki bara á forsendum smásala heldur samfélagsins í heild, ekki síst út frá lýðheilsu og forvörnum,“ segir Katrín.

Katrín telur ekki nægjanlegt að semja eitt frumvarp í einu …
Katrín telur ekki nægjanlegt að semja eitt frumvarp í einu ráðuneyti um netverslun með áfengi.

Þurfum öll sjónarmið

Spurð hvort að aðkoma allra muni ekki sjálfkrafa leiða til þess að málið komist ekki úr hjólförunum og leiða þar af leiðandi til óbreytts ástands þá telur Katrín svo ekki vera.

„Við verðum bara að vera reiðubúin að taka þetta samtal út frá breiðum grunni. Menn eru ekki á eitt sáttir um hvað er löglegt og hvað ekki í þessu máli. Við þurfum öll sjónarmið að borðinu og aðeins þannig fáum við sátt um þessi mál,“ segir Katrín.

Ekki á forsendum smásala

Spurð hvort þetta þýði að frumvarp Jóns Gunnarssonar um netverslun sem sett var á bið í ríkisstjórn sé út af borðinu með þessu þá segir Katrín að aðal málið sé að fá alla að borðinu en ekki sé gerð lagasetning á forsendum smásala.

„Við þurfum að horfast í augu við þær breytingar sem eru að verða á samfélaginu og það kallar á aðkomu margra aðila en ekki eingöngu frumvarps sem samið er í einu ráðuneyti út frá þröngum forsendum,“ segir Katrín.

Katrín segir það fullveldismál að ákveða hvernig aðgengi að áfengi …
Katrín segir það fullveldismál að ákveða hvernig aðgengi að áfengi sé háttað hérlendis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hluti af okkar fullveldi

Eins og fram hefur komið geta einstaklingar pantað áfengi af erlendum netverslunum á löglegan máta en óvissa ríkir um heimild innlendrar netverslunar um þessi mál. Hefur það vakið upp spurningar á borð við þá hvort það standist stjórnarskrá að banna Íslendingum að bjóða slík viðskipti.

„Það hlýtur að vera okkar hluti af okkar fullveldi hvernig við háttum okkar áfengisstefnu en látum það ekki stýrast af erlendri löggjöf,“ segir Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert