Látin undirbúa helgarblað sem kemur ekki út

Lovísa Arnardóttir, fréttastjóri Fréttablaðsins, segir ekkert hafa bent til þess …
Lovísa Arnardóttir, fréttastjóri Fréttablaðsins, segir ekkert hafa bent til þess í morgun að útgáfunni yrði hætt í dag. Samsett mynd

Lovísa Arnardóttir, fréttastjóri Fréttablaðsins, segir starfsfólk vera í áfalli eftir tíðindi dagsins sem hafi komið öllum að óvörum, en tilkynnt var fyrr í dag að útgáfu Fréttablaðsins yrði hætt frá og með deginum í dag. Fréttavefnum verður einnig lokað síðar í dag og mun allt starfsfólk miðilsins missa vinnuna.

Lovísa segir ekkert hafa bent til þess þegar starfsfólk mætti til vinnu í morgun að til stæði að hætta útgáfunni í dag. Enda hafi verið haldinn hefðbundinn ritstjórnarfundur þar sem línurnar voru lagðar fyrir helgarblaðið sem átti að koma út á morgun.

Þegar morgunfundinum var lokið var starfsfólk hins vegar kallað á annan fund þar sem tilkynnt var að útgáfu Fréttablaðsins yrði hætt og helgarblaðið kæmi ekki út. Öll vinnan við blað morgundagsins var því farin í súginn.

Þá voru einhverjir starfsmenn við vinnu á vettvangi og lásu um tíðindin á vefmiðlum.

Starfsmenn kynna sér réttindi sín

Lovísa segir að það hafi verið staðið jafn illa að kynningu á breyttri dreifingu blaðsins eftir áramótin, þegar ákveðið var að hætta að bera blaðið í hús og dreifa því eingöngu í verslanir og á bensínstöðvar. Þær breytingar hafi verið kynntar fyrir starfsfólki á samskonar fundi.

Tekið var fram í tilkynningu frá Útgáfufélaginu Torg að allir ráðnir starfsmenn hefðu fengið greidd laun í dag, en óvíst er með framhaldið. Þegar mbl.is náði tali af Lovísu voru starfsmenn á leið upp í Blaðamannafélag til að kynna sér betur réttindi sín í þessari stöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert