Segir umræður um virkjanir vera „tabú“

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra telur umræðuna um raforkuþörf Íslendinga síðustu ár, sem hefur litast af því að ekki sé þörf á að virkja meira, hafa verið sérkennilega og segir hann það nánast verið tabú að ræða hlutina eins og þeir eru. Hann segir orkuvandann vera nær okkur í tíma heldur en fólk hafi gert sér grein fyrir en að áskoranirnar framundan séu viðráðanlegar.

Hann fagnar því að starfshópur sem um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra skipaði í byrjun árs, sé búinn að skila skýrslu um stöðu og áskor­an­ir Íslands í orku­mál­um en segir niðurstöður hennar jafnframt koma sér á óvart. Sviðsmyndirnar sem þar má finna geri ráð fyrir mun meiri orkuþörf en áður hefur komið fram. Kvað ein af þeim á um að ríflega tvöfalda þyrfti raforkuframleiðslu hér á landi á næstu 18 árum, eða því sem nemur 124%. 

„Menn verða að gera sér grein fyrir því að loftslagsvandinn verður ekki leystur nema með nýrri grænni orku. Það er lykillinn. Valkosturinn sem menn vilja setja upp er að lækka lífskjör í landinu og minnka atvinnu og það tel ég ekki vera valkost sem ég get samþykkt,“ segir Sigurður Ingi í samtali við mbl.is.

Nýsköpun muni einnig lyfta undir

Verkefnið framundan er ekki óyfirstíganlegt að sögn Sigurðar Inga þó að það sé vissulega áskorun til skemmri tíma. Hann segir þó nokkra kosti standa til boðar í rammaáætlun tvö og þrjú – og jafnframt rammaáætlun fjögur sem eru fyrirhuguð – sem munu hjálpa Íslendingum að takast á við þær áskoranir sem eru framundan í orkumálum. 

Þá hafa verið til um ræðu vindorkugarðar á fjórum stöðum, Blöndulundi, Búrfellslundi, Þistareykjum og Fljótsdalsheiði, þar sem línulagnir og spennustöðvar eru til staðar.

„Þar gætum við verið að tala um nokkur hundruð megavött án þess að það yrðu stórkostlegar breytingar á Íslandi.“

Raunhæf framkvæmd

Spurður hvort hann telji raunhæft að ríflega tvöfalda raforkuframleiðslu Íslands á næstu 18 árum eins og ein sviðsmynd skýrslunnar kvað á um, segir hann það vel framkvæmanlegt.  Einungis þær virkjanir sem séu í nýtingarflokki eigi eftir veita okkur talsvert svigrúm á næstu fjórum til átta árum.

„Síðan kemur auðvitað nýsköpun. Allur heimurinn er að sækjast eftir því að fá nýja orku, græna orku. Innan tíu, og örugglega fimmtán ára, verðum við komin með nýjar leiðir. Hér á Íslandi höfum við verið að skoða djúporku sem gæti skilað mjög miklu ef það yrði að veruleika. Við höfum verið að ræða að búa til eðlilegan farveg fyrir vindmyllur sem mun taka nokkur ár. Og við höfum líka verið að ræða kosti eins og sjávarfallsvirkjanir.

Á tuttugu ára tímabili hef ég ekki miklar áhyggjur en til skemmri tíma er þetta áskorun en ég held að hún sé gerleg og án þess að fórna náttúrunni.“

Ferlið verði að vera skilvirkara

Spurður hvort hægt sé að ráðast í allar þessar breytingar á næstu árum án þess að endurskoða lagarammann, segir Sigurður Ingi nauðsynlegt að skoða það líka.

„Það er svo viðbótaráskorun. Á sama tíma og við tryggjum aðkomu allra að upplýsingum og mögulegum kærum og slíku – sem er mikilvægt, þá þarf þessi ferill að vera skilvirkari heldur en hann hefur verið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert