Engin kennsla fyrr en vorið 2022

Ekkert bólar á matsskýrslum vegna vatnstjóns sem varð í byrjun …
Ekkert bólar á matsskýrslum vegna vatnstjóns sem varð í byrjun árs í Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Endurbætur vegna tjóns sem varð í kjölfar vatnsleka í húsakynnum Háskóla Íslands eru ekki enn hafnar. Húsnæðið sem fór verst út úr lekanum verður því líklega ekki nothæft fyrr en vorið 2022.

Beðið er eftir matsskýrslum annars vegar á tjóninu og hins vegar á orsökum þess. 

„Von okkar var að hægt yrði að fara í þessar endurbætur í byrjun ágústmánaðar en mér sýnist það ekki ætla að ganga eftir,“ segir Jón Atli Benediktsson rektor háskólans í samtali við mbl.is.

Þegar stofnlögn Veitna fór í sundur í byrjun árs flæddi vatn inn um dyr háskólans svo að mikið tjón varð á kennslu- og starfsrýmum, sem hleypur sennilega á hundruðum milljóna króna.

Vonuðust til að fá niðurstöðu í málið fyrir sumarið

Jón Atli tekur þó fram að ýmsar úrbætur sem þoldu enga bið hafi verið gerðar í kjölfar lekans. 

„Ýmislegt hefur verið gert vegna augljóss tjóns, myglu og þess háttar, gifsveggir teknir niður og ýmislegt sem var bara skemmt. En við höfum ekki ráðist í þær endurbætur sem þarf að ráðast í til þess að gera húsnæðið nothæft.“

Óvissa ríkir um hver skuli bæta tjónið og munu dómkvaddir matsmenn ákvarða það en vonir stóðu til að niðurstaða fengist í málið fyrir sumarið.

Útilokar ekki að taka húsnæði á leigu

Hefur verið ákveðið hvar kennslan mun fara fram, nú þegar vitað er að húsnæðið er ónothæft í haust? Kemur Hótel Saga til dæmis til greina?

Við höfum leitað ýmissa leiða. Ég held það sé á góðum stað, við höfum verið að skoða til dæmis rými hjá okkur sem hafa ekki verið notuð í kennslu, sem væri hægt að nýta núna,“ segir Jón. Hann útilokar ekki að húsnæði verði tekið á leigu svo kennsla geti farið fram.

Hann segir að tjónið sé gríðarlegt og háskólinn þurfi að fá það bætt. Um leið og matsskýrslurnar eru tilbúnar sé hægt að stíga næstu skref.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert