Eldvarnir teknar fastari tökum

Tveir stórbrunar urðu í fyrra sem reyndu mjög á slökkviliðið. …
Tveir stórbrunar urðu í fyrra sem reyndu mjög á slökkviliðið. Nú er hafin vinna við að fylgja því eftir að eldvarnir í eftirlitsskyldum húsum séu samkvæmt lögum og reglum og að brunavarnakerfi séu í lagi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Stórbrunar sem við lentum í við Miðhraun í Garðabæ og Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði í fyrra ýttu rækilega við okkur varðandi eldvarnir. Þessir eldsvoðar voru af þeirri stærðargráðu að við réðum hreinlega ekki við þá. Ég var orðinn hræddur um öryggi minna manna og það er ískyggilegt,“ sagði Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS).

Hann sagði að ef vatnsúðakerfi hefðu verið til staðar í þessum húsum hefði eldurinn væntanlega ekki náð að magnast eins og hann gerði. Bjarni Kjartansson, sviðsstjóri á forvarnasviði SHS, sagði að þessir tveir stórbrunar hefðu verið af þeirri stærðargráðu að slökkviliðið hefði þurft að láta eldinn geisa þar til fór að draga úr honum. Þá fyrst gat slökkvistarf hafist.

SHS hefur lagt aukna áherslu á eldvarnaeftirlit frá áramótum og því verkefni verður fylgt eftir. Jón Viðar sagði að lög um brunavarnir (75/2000) og reglugerð um eldvarnir og eldvarnaeftirlit (723/2017) kvæði skýrt á um ábyrgð eigenda og forráðamanna húsnæðis á eldvörnum. Þá er átt við húsnæði sem er skoðunarskylt af hálfu eldvarnaeftirlits slökkviliðs. Það eru m.a. hús þar sem margir starfa, koma saman, fara um eða dveljast, þ.e. húsnæði þar sem hætta er á stórfelldu manntjóni í eldsvoða. Þetta á t.d. við um sjúkrahús, skóla, hjúkrunarheimili, fangelsi og gistihús. Einnig húsnæði með starfsemi sem sérstök eldhætta stafar af og þar sem hætta er á miklu eignatjóni í eldsvoða, t.d. lagerhúsnæði þar sem geymdur er mikill eldsmatur.

Ábyrgðin er húseigenda

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Ljósmynd/Aðsend

„Húseigandi ber ábyrgð á því að brunavarnir séu í lagi. Með reglugerðinni komu ákvæði til að fylgja þessu eftir. Hver húseigandi á að tilnefna eldvarnafulltrúa sem sér um þessi mál fyrir hans hönd og er tengiliður við slökkviliðið,“ sagði Jón Viðar. Bjarni bætti því við að forráðamaður, t.d. leigjandi húsnæðisins, bæri einnig ábyrgð þótt endanleg ábyrgð væri hjá eigandanum. „Ef húsnæðið er eftirlitsskylt vegna eldvarna þá verður að tilnefna eldvarnafulltrúa,“ sagði Bjarni.

Þeir sögðu að eldvarnafulltrúar þyrftu eðli málsins samkvæmt að þekkja til eldvarna. Jón Viðar sagði að Mannvirkjastofnun hygðist halda námskeið í haust fyrir eldvarnafulltrúa. Hann sagði að sérhæfðir starfsmenn verkfræðistofa, öryggisfyrirtækja og einkaaðilar með fagþekkingu gætu sinnt störfum eldvarnafulltrúa. Eins gætu fyrirtækin sjálf tilnefnt eldvarnafulltrúa úr röðum starfsmanna hefðu viðkomandi þá þekkingu sem krafist er. Eldvarnafulltrúar tryggja að eldvarnir bygginga séu til staðar og í lagi, einnig að skoðanir og viðhald sé skráð og skjalfest. Mörg kerfi sem tengjast eldvörnum eins og vatnsúðakerfi og brunaviðvörunarkerfi eru skoðunarskyld. Fagaðilar sem fá vottun eftir námskeið hjá Mannvirkjastofnun eiga að taka þau út með reglulegu millibili.

mbl.is/​Hari

Jón Viðar sagði að lög um brunavarnir og reglugerð um eldvarnir og eldvarnaeftirlit römmuðu málefnið vel inn og gæfu fullnægjandi heimildir til aðgerða. Hingað til hefði hins vegar skort á að eigendur og forráðamenn færu eftir settum reglum. Nú væri verið að breyta því. Breytingar á eldvarnaeftirliti sem er verið að gera hér hefðu verið innleiddar fyrir löngu annars staðar á Norðurlöndunum.

„Brunavarnir eru orðnar umfangsmikill þáttur í byggingu húsa og eru enn að aukast. Nú eru byggð stærri hús með stærri rýmum en í gamla daga. Áður voru hús hólfuð meira niður og það kemur í veg fyrir útbreiðslu elds,“ sagði Jón Viðar. Bjarni sagði að brunavarnir í stórhýsum væru orðnar tæknilega flóknar með sjálfvirkum slökkvikerfum, sjálfvirkri reyklosun og brunaviðvörunarkerfum sem ynnu með öðrum kerfum eins og loftræstikerfum og brunahólfun. Virkniprófa þyrfti allt ferlið reglulega.

Bjarni Kjartansson, sviðsstjóri á forvarnasviði SHS.
Bjarni Kjartansson, sviðsstjóri á forvarnasviði SHS. mbl.is/Frikki

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út í gær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert