Hyggst hafa samband við viðskiptavini

mbl.is/Kristinn Magnússon

Bifreiðaumboðið BL hyggst hafa samband við alla viðskiptavini fyrirtækisins sem keypt hafa bifreiðar í gegnum það sem áður voru í eigu bílaleigunnar Procar. Bílaleigan hefur viðurkennt að hafa átt við kílómetramæli fjölda bifreiða sem hún voru í hennar eigu sem síðan voru seldar áfram. Samkæmt fyrirliggjandi gögnum hafi BL / Bílaland selt 185 bifreiðar frá Procar á árunum 2011 til 2017 en engan á síðasta ári.

„BL hefur farið þess á leit við lögmannsstofuna Draupni, sem fer með málið fyrir hönd Procar, að framkvæma úttekt á öllum bílunum 185 til að ganga úr skugga um við hvaða bíla Procar átt var við kílómetramælinn í. Lögmannstofan hefur gefið sér tveggja vikna frest til að ljúka úttektinni,“ segir ennfremur í fréttatilkynningu. Haft verði samband við viðskiptavini um leið og upplýsingar berist frá Draupni um málið.

„Það á enn eftir að koma í ljós hvernig bótagreiðslum verður háttað gagnvart þeim sem keypt hafa bíl frá Procar á röngum forsendum. Eins og áður segir fer lögmannsstofan Draupnir með málið fyrir hönd Procar og á þessu stigi málsins hefur enn ekki verið upplýst hvernig bílaleigan hyggst bæta viðskiptavinum tjónið. Þegar það liggur fyrir mun BL fyrst geta metið næstu skref með tilliti til hagsmuna viðskiptavina sinna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert