Hvað er svona sérstakt við Drangajökulssvæðið?

Nyrðra-Eyvindarfjarðarvatn á Ófeigsfjarðarheiði er á áhrifasvæði fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar. Drangajökull sést …
Nyrðra-Eyvindarfjarðarvatn á Ófeigsfjarðarheiði er á áhrifasvæði fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar. Drangajökull sést í baksýn. mbl.is/Golli

Tilkomumikið landslag mótað af jöklum ísaldar. Mjög virk landmótunarferli. Litfögur setlög og hraunlög. Óvenju greinilegir og margir jökulgarðar frá lokum síðasta jökulskeiðs. Náttúrufegurð almennt mikil.

Þannig er svæði sem nær yfir Drangajökul og nágrenni hans lýst í tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands að friðlýsingu. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að helsta ógn sem að svæðinu stafi sé möguleg virkjun vatnsfalla en á þessu svæði eru tvær stærri virkjanir fyrirhugaðar: Hvalárvirkjun á Ófeigsfjarðarheiði og Austurgilsvirkjun við Djúp.

„Við gerum okkur fulla grein fyrir því að Hvalárvirkjun er í orkunýtingarflokki rammaáætlunar og að umhverfismat á henni hefur farið fram. Einnig að Austurgilsvirkjun er í orkunýtingarflokki í tillögum að þriðja áfanga rammaáætlunar,“ segir Trausti Baldursson, forstöðumaður vistfræði- og ráðgjafardeildar Náttúrufræðistofnunar, sem leiddi vinnu við tillögugerðina. „En hlutverk okkar í þessu tilviki er að rannsaka og kortleggja náttúrufar og gera tillögur um vernd út frá því, óháð hagsmunum annarra. Því hlutverki erum við að sinna með þessum tillögum. Hvað svo verður um þær er í annarra höndum.“

Á þessu korti er skáletrar með svörtum lit það svæði …
Á þessu korti er skáletrar með svörtum lit það svæði sem nú er lagt til að verði friðlýst. Norðar er friðlandið að Hornströndum. Skjáskot/Náttúrufræðistofnun Íslands

Þó að tillagan um verndun Drangajökuls og næsta nágrennis hafi verið áberandi í fréttum síðasta sólarhringinn er hún aðeins ein af fjölmörgum sem starfsmenn Náttúrufræðistofnunar, í samráði við fagráð náttúruminjaskrár, hafa unnið og sent umhverfis- og auðlindaráðherra og unnið verður frekar með m.a. af Umhverfisstofnun. Um er að ræða tillögur að skipulegu neti verndarsvæða á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár út frá verndun vistgerða, fugla og jarðminja samkvæmt lögum um náttúruvernd.

En hvers vegna er fyrst núna verið að leggja til verndun Drangajökulssvæðisins?

Þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn sem tillaga um vernd svæðsins kemur fram. Í aðdraganda náttúruverndaráætlunar áranna 2004-2008 gerðu Náttúrufræðistofnun og Umhverfisstofnun tillögu að vernd svæðisins

En skýringin á tímasetningu tillögunnar nú felst m.a. í nýjum náttúruverndarlögum sem samþykkt voru árið 2013 en gildistöku þeirra var frestað þar til í nóvember 2015. Samkvæmt 13. grein þeirra laga skal umhverfis- og auðlindaráðherra gefa út náttúruminjaskrá eigi sjaldnar en á fimm ára fresti. Í nýju lögunum er m.a. byggt á Bernarsamningnum svokallaða þar sem tilgreindar eru þær tegundir og vistgerðir sem aðildarríkin eru sammála um að eigi að njóta verndar.

Náttúruminjaskrá skiptist í þrjá hluta sem auðkenndir eru sem A, B og C. B-hlutinn, sem Náttúrufræðistofnun hefur nú unnið tillögur að, er framkvæmdaáætlun skrárinnar, þ.e. skrá yfir þær náttúruminjar sem Alþingi hefur ákveðið að setja í forgang um friðlýsingu eða friðun á næstu fimm árum.

Árið 2017 lauk úttekt á náttúru landsins út frá vistgerðum og fuglategundum þar sem skilgreindar voru vistgerðir og jafnframt sett fram endurskoðað mat á stofnstærð fugla og skilgreind alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði. Á grundvelli þeirrar vinnu voru svæði valin til að ná fram fyrrgreindum verndarmarkmiðum og koma á fót neti verndarsvæða fyrir tilteknar vistgerðir og fugla.

Áhrifasvæði fyrirhugaðrar Austurgilsvirkjunar og Hvalárvirkjunar eru á því svæði sem …
Áhrifasvæði fyrirhugaðrar Austurgilsvirkjunar og Hvalárvirkjunar eru á því svæði sem Náttúrufræðistofnun leggur til að verði friðlýst. mbl.is/Kristinn Garðarsson

Að sögn Trausta var því fyrst nú komið að því að velja svæði á B-hluta náttúruminjaskrárinnar samkvæmt hinum nýju lögum.

„Í þessum áfanga einbeittum við okkur fyrst og fremst að verndarsvæðum vistgerða og fugla,“ útskýrir Trausti. „Og við byggjum okkar vinnu á sömu aðferðarfræði og er verið að beita í Evrópu allri, að útfæra skipulagt net verndarsvæða á landsvísu. Í þessari vinnu erum við í fyrsta skipti að gera þetta með skipulögðum hætti.“

Fuglar hafa ekki fast lögheimili

Hvað fjölda svæðanna varðar bendir Trausti m.a. á að fuglar hafi ekkert fast lögheimili; þeir þurfi bæði fæðu- og varpsvæði, svo dæmi sé tekið. Því þurfi að skoða þeirra búsvæði með heildrænum hætti, ekki aðeins staðbundnum.

Það er nú í höndum umhverfisráðherra að fela Umhverfisstofnun að meta nauðsynlegar verndarráðstafanir á svæðum sem til greina kemur að setja á framkvæmdaáætlunina og kostnað við þær. Í því ferli koma fram ýmsir aðrir hagsmunir sem geta haft áhrif á endanlegt val svæða en eru sem slíkir ekki grunnþættir í vali á svæðum til að viðhalda ákjósanlegri verndarstöðu vistgerða, vistkerfa eða tegunda. Að lokum mun umhverfis- og auðlindaráðuneytið í samráði við ráðgjafanefnd leggja fram þingsályktunartillögu um verndun svæða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert