Rangt af áhöfninni að setja blómsveig á leiði Birnu

Grænlenski togarinn Polar Nanoq í Hafnarfjarðarhöfn.
Grænlenski togarinn Polar Nanoq í Hafnarfjarðarhöfn. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Áhöfn togarans Polar Nanuk, sem lagði nýverið blómsveig á leiði Birnu Brjánsdóttur, átti ekkert með að gera það án samráðs og leyfis hjá nánustu aðstandendum. Þetta segir Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastdæma, í tilkynningu sem hann sendi á fjölmiðla í tilefni af umfjöllun í síðustu viku um málið.

Segir í tilkynningunni að leiði Birnu sé eins og öll önnur leiði í kirkjugörðum frátekið fyrir þann sem þar hvílir og aðstandendur hans. Það séu aðstandendur sem ráði því hvað sé sett á leiði til að prýða þau, innan ákveðins ramma.  

„Ef einhver vinur eða fjarskyldur ættingi finnur hvöt hjá sér til að setja blómsveig eða krans á leiði, nokkru eða löngu eftir jarðsetningu til að sýna virðingu, þarf viðkomandi að hafa um það samráð og fá leyfi til þess hjá nánustu aðstandendum,“ segir Þórsteinn.

Frétt mbl.is: Lögðu krans á leiði birnu

Bætir hann við að áhöfnin hafi átt að biðja um leyfi fyrir að setja blómsveiginn á leiði Birnu. „Áhöfn togarans átti ekkert með að setja blómsveig á leiði Birnu svo löngu eftir jarðsetningu hennar nema með leyfi nánustu aðstandenda. Ég er ekki með þessu að segja að blómsveigur áhafnarinnar hafi ekki verið virðingarvottur, ég er hér að tala um framkvæmdina, hún var röng.“

Segir Þórsteinn að hefði áhöfnin kynnt sér viðhorf aðstandenda hafði komið í ljós að þau kærðu sig ekki um slíkt. Þá tekur Þórsteinn fram að myndatökur séu bannaðar í kirkjugörðum nema tryggt sé að ekki komi fram nöfn og áletranir á minningarmörkum. Segir hann þetta hafa verið þverbrotið í þessu tilviki, þar sem mynd af leiði Birnu var birt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert