„Erfiðu árin eru að baki“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, flutti setningarræðu sína síðdegis á landsfundi …
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, flutti setningarræðu sína síðdegis á landsfundi flokksins sem fram fer um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tvö ríkisstjórnarsamstörf, stjórnarslit, góðæri sem nú stendur yfir, átak í innviðauppbyggingu, traust stjórnarflokkanna, menntamál, peningastefna og skattamál voru meðal málefna sem Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, kom inn á í umfangsmikilli setn­ing­ar­ræðu sinni á lands­fundi flokks­ins sem fer fram í Laug­ar­dals­höll um helg­ina.

Bjarni hóf ræðuna á að líta yfir salinn og minnast þeirra sem saknað er. „Þegar ég horfi hér yfir salinn sakna ég þess að sjá ekki Ólöfu Nordal í fremstu röð. Þar var hennar staður. Í svo margvíslegum skilningi.“

Yfirskrift landsfundarins er „Gerum lífið betra“ og sagði Bjarni hana vera í anda Ólafar. „Og áhuga hennar á öllu því sem getur gert lífið fallegra og betra.“ Arftaki Ólafar í starf varaformanns flokksins verður kjörinn um helgina.

Tvennar kosningar eru liðnar frá síðasta landsfundi flokksins og fór Bjarni yfir bæði kjörtímabilin og byrjaði á stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sem myndað var eftir kosningarnar í október.

„Stjórnarsamstarfið fór ágætlega af stað en ég verð að segja að mér fannst það vera töluvert höktandi.“ Þá sagði Bjarni að honum hefði fundist undarlegt að sjá samstarfsmenn flokksins úr stjórninni lýsa því yfir eftir á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið á einhvers konar skilorði hjá þeim í stjórnarsamstarfinu.

„Allt endaði þetta með því að sá flokkur ákvað að standa með sjálfum sér, eins og það er kallað, og slíta stjórnarsamstarfinu. Þarna var auðvitað um að ræða flokkinn sem kenndi sig við bjarta framtíð, en á sér núna enga framtíð,“ sagði Bjarni. Þannig hafi það komið í ljós á endanum að það var Björt framtíð sem var á skilorði – hjá kjósendum.

Söguleg ríkisstjórn sem nú er við völd

Bjarni sagði að myndun ríkisstjórnar eftir kosningarnar í haust sé á margan hátt söguleg. „Við höfum áður átt gott samstarf við Framsókn en það er ekki sjálfsagt að ná saman við Vinstri græn sem eru, eins og við vitum, hinum megin á pólitíska ásnum.“

Sérstakar aðstæður nú gera það að verkum að flokkunum tekst vel að vinna saman og traust ríkir á milli stjórnarflokkanna.  

„Við erum í miðju góðæri og erfiðu árin eru baki. Heimilin eru á uppleið, fyrirtækin standa betur, ríkissjóður greiðir niður skuldir og það er í sjálfu sér ekki nema bjart fram undan. Samt sem áður hefur það verið svo að þessi veruleiki hefur ekki náð inn á pólitíska sviði, við höfum ekki fundið fyrir honum á Alþingi eða í stjórnmálunum almennt.“

Innviðauppbygging fram undan

Bjarni vill við þessar aðstæður brúa ágreining um þau mál sem þarf að vinna að núna. „Til þess einfaldlega að missa ekki af þessu einstaka tækifæri til uppbyggingar sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir. Til að tryggja stöðugleika, ráðast í innviðauppbyggingu og að eiga löngu tímabært samtal við vinnumarkaðinn um að varðveita árangurinn sem við höfum náð.“

Um þetta gátu Vinstri grænir, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur náð saman, að sögn Bjarna. „Og þessi ríkisstjórn ætlar í innviðauppbyggingu, við ætlum bæði að styrkja efnislega og félagslega innviði, efnahagslega og félagslega. Við færum yfir 150 milljarða frá fjármálafyrirtækjunum til innviða. Það þarf að auka framlög til löggæslu og vegamála, fjölga lögreglumönnum, auka öryggi á vegunum, framlög til menntunar-, heilbrigðis- og velferðarmála almennt munu vaxa. Auk alls þessa munum við halda áfram að greiða upp skuldir.“

Bjarni fór um víðan völl í ræðu sinni og kom meðal annars inn á umhverfismál, menntamál, þjóðaröryggismál, sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál, málefni bænda ásamt fleiru.

Þjóðin haldi forræði yfir stjórn peningamála

Bjarni kom jafnframt inn á peningastefnu flokksins. „Það þarf ekki að fara í grafgötur með það hversu mikil áskorun það getur verið fyrir fámenna þjóð að halda úti eigin gjaldmiðli. Flökt á gengi krónunnar veldur augljóslega vandamálum, bæði fyrir fyrirtæki og heimilin.“

Þegar kostir og gallar íslensku krónunnar og kostir og gallar þess að taka upp aðra mynt eftir inngöngu í Evrópusambandið eru vegnir segir Bjarni svarið vera augljóst.

„Við viljum halda forræði þjóðarinnar yfir stjórn peningamála og við viljum að áfram verði byggt á íslensku krónunni. Við höfnum þeirri hugmynd að taka upp aðra mynt og við höfnum þeirri hugmynd að Ísland eigi að ganga í ESB til að taka upp evruna.“

Varðandi skattamál sagði Bjarni að málið væri ósköp einfalt, skattar muni lækka. „Við ætlum að halda áfram að lækka skatta á þessu kjörtímabili. Tekjuskattur mun lækka, tryggingagjald mun lækka, þetta er stefna okkur, þetta er skrifað í stjórnarsáttmálann. Þetta mun gerast og fyrstu skrefin verða tekin strax á næsta ári.“

Hefur lítið tekið þátt í fermingarundirbúningi

Bjarni fór einnig aðeins inn á persónulegar nótur og sagði það ómetanlegt að eiga þann skilning sem hann hefur notið frá fjölskyldunni vegna starfsins, þar sem erfitt er að skilja vinnuna eftir á þinginu eða í ráðuneytinu í lok dags. „Og trúið mér, það er ýmislegt sem hefur komið upp á.“ Þegar tímasetning landsfundar var ákveðin fór það fram hjá honum að um sömu helgi er að ræða og ferming dóttur hans fer fram.

„Helga Þóra dóttir mín á einmitt að fermast þessa helgi. Mig langar því að nota tækifærið og þakka fyrir að fá að vera enn þá fullur þátttakandi í fjölskyldulífinu þar sem ég verð að viðurkenna að það hefur ekki verið mikið á mér að græða í fermingarundirbúningnum. Og ég set allt mitt traust á fundarstjóra um að dagskráin standist algjörlega svo að ég komist að minnsta kosti í veisluna á sunnudaginn.“  

Að lokum sagði Bjarni að á þessum 43. landsfundi Sjálfstæðisflokksins yrði hlutverk flokksins að marka stefnu til næstu ára. „Sem gerir lífið enn betra. Fyrir okkur öll.“

Hér má sjá ræðu Bjarna í heild sinni: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert