OR biðs velvirðingar á menguninni

mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur biðst velvirðingar á þeirri mengun sem orðið hefur vegna bilunar í skólpdælustöð við Faxaskjól og losunar óhreinsaðs skólps í sjó í tengslum við viðgerðir vegna hennar.

Þetta kemur fram í bókun aukafundar stjórnar Orkuveitunnar sem haldinn var í dag vegna skólpmengunarmálsins. Fundurinn var haldinn að ósk borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Kjartans Magnússonar og Áslaugar Friðriksdóttur. 

Í bókuninni, sem var samþykkt samhljóða á fundinum, kemur fram að stjórn Orkuveitu Reykjavíkur telji að skoða þurfi fráveitukerfi Veitna og virkni þess í samræmi við vaxandi umhverfiskröfur, ekki síst við þær aðstæður þegar bilanir koma upp eða álag verður óeðlilega mikið.

Hefði átt að upplýsa almenning betur

Stjórnin lýsti ánægju með nýtt verklag Veitna varðandi samskipti við heilbrigðiseftirlit og aukna upplýsingagjöf til almennings. Þá telur stjórnin að upplýsa hefði átt almenning jafnóðum um þá skolplosun, sem átti sér stað í tengslum við umræddar viðgerðir. „Stjórnin vill jafnframt koma þökkum á framfæri við starfsmenn Veitna, sem hafa unnið að viðgerðum og strandhreinsun,“ segir í bókuninni.

Í síðustu viku fóru Veit­ur og Heil­brigðis­eft­ir­lit Reykja­vík­ur yfir verklag varðandi upp­lýs­inga­gjöf til al­menn­ings þegar losa þarf skólp í sjó vegna viðhalds eða bil­ana. Þar kom fram að upp­lýs­inga­gjöf bæði til fjöl­miðla og al­menn­ings verði auk­in og fjöl­miðlar jafn­framt upp­lýst­ir um fram­gang verks­ins. 

Veit­ur munu halda áfram viðgerð á neyðarloku í skólp­dælu­stöð við Faxa­skjól á morg­un, 18. júlí. Vegna viðgerðanna þarf að opna neyðarlúg­ur í dælu­stöðvum bæði við Skelja­nes og Faxa­skjól og verður óhreinsuðu skólpi hleypt í sjó­inn. Neyðarlúg­ur hafa verið lokaðar und­an­farna daga en vonast er til þess að með viðgerðinni á morgun verði hægt að klára málið.

Vegna viðgerðanna þarf að opna neyðarlúgur í dælustöðvum bæði við …
Vegna viðgerðanna þarf að opna neyðarlúgur í dælustöðvum bæði við Skeljanes og Faxaskjól og óhreinsuðu skólpi hleypt í sjóinn. Mynd/Veitur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert