Lögfesting samningsins mikilvægt réttindamál

Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra segir mikið framfaraskref fyrir fatlaða fái NPA …
Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra segir mikið framfaraskref fyrir fatlaða fái NPA afgreiðslu í haust. mbl.is/Eggert

Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra segir ummæli sín þess efnis að stjórnarandstaðan hafi hindrað framgang frumvarps um þjónustu við fatlað fólk vera á misskilningi byggð. „Hvað þetta varðar hefur minnihlutinn réttilega vísað til þess að samkomulag hafi orðið um þessar lyktir mála milli minni- og meirihluta,“ segir í yfirlýsingu frá ráðherra.

Eins og komið hafi fram í fjölmiðlum þá sé hann engu að síður afar ósáttur við að ekki hafi náðst að ljúka afgreiðslu frumvarpa til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir (NPA) og um félagsþjónustu sveitarfélaga fyrir þinglok nú í vor sem fela meðal annars í sér lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Lögfesting samningsins er afar mikilvægt réttindamál fyrir fatlaða.

„Ég tel hinsvegar rétt að árétta mikilvægi þess að þær grundvallarbreytingar sem felast munu í þessum tveimur frumvörpum séu afgreiddar tímanlega bæði til að lágmarka óvissu notenda þjónustunnar og til að sveitarfélög og ríki fái nauðsynlegan undirbúningstíma fyrir fyrirhugaða gildistöku um næstu áramót.

Þverpólitísk samstaða hefur ríkt um mikilvægi þessarar lagabreytingar og allt meginefni hennar. Þá er ljóst að þrátt fyrir að málið hafi komið inn til Alþingis strax í byrjun apríl hefur velferðarnefnd haft mörg mál á sinni könnu og því haft minni tíma en æskilegt hefði verið til að ljúka þessum tilteknu málum. Þrátt fyrir þröngan tímaramma var hinsvegar unnin mikil vinna bæði í nefnd og í ráðuneyti með hagsmunaaðilum og því stóðu væntingar mínar til að málin myndu klárast núna í þinglok. Það skýrir vonbrigði mín við með þessar málalyktir.

Ég fagna því að þverpólitísk samstaða ríkir um að greitt verður fyrir afgreiðslu málanna á haustþingi þannig að þetta mikla framfaraskref fyrir fatlaða fái afgreiðslu í haust,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert