Farin að hugsa á norsku vegna Skam

Það er ekki ólíklegt að foreldrar séu farnir að heyra ungling heimilisins nota norska frasa á borð við; Halla! eða drittkult, eins og ekkert sé sjálfsagðara. Ef svo er þá eru norsku þættirnir Skam eða Skömm ástæðan. Þættirnir njóta mikilla vinsælda um allan heim og ekki síst hér á landi. Við fengum nokkra krakka til að útskýra æðið fyrir okkur.

Þættirnir eru framleiddir af norska ríkisútvarpinu og fjalla um líf unglinga í Hartvig Nissen-skólanum í einu af fínni hverfum Óslóar. Á undanförnum mánuðum hafa þeir náð óvæntum og miklum vinsældum á alþjóðavísu. Framleiðsluteymi þáttanna hefur nýtt sér ótal samskiptamiðla til að ná til unglinga. Persónurnar eru með eigin Instagram-reikninga svo eitthvað sé nefnt og samskipti þeirra á milli birtast á vef NRK, eru hluti af söguþræðinum og byggja upp spennu fyrir þættina.

Noora er ein vinsælasta sögupersónan í Skam og hefur 211 þúsund fylgjendur á Instagram.

<div> <div></div> </div>

<a href="https://www.instagram.com/p/BGM1RvXLTXJ/" target="_blank">❤️</a>

A photo posted by Noora Sætre (@loglady99) on Jun 3, 2016 at 10:21am PDT

Áhuginn er svo mikill að mjög stuttur tími líður frá því að SMS-skilaboð, Instagram-færsla, þáttur eða brot af þætti birtast á Skam-vefnum, þar til að búið er að þýða innihaldið á ensku, spænsku, þýsku, portúgölsku, kínversku og fleiri tungumál. Vinsældirnar eru slíkar að Simon Fuller, sem er ábyrgur fyrir Idol-þáttunum misvinsælu, hefur tryggt sér réttinn til að framleiða þættina fyrir bandarískan markað. 

Eitt af því áhugaverða við þættina og ætti að vekja einhverjum von í brjósti er að þeir fjalla um málefni sem ekki fá mikla vigt í bandarísku efni af svipuðu tagi. Samkynhneigð, trúmál, geðheilbrigði og kynferðisofbeldi eru þar á meðal og fjallað er um þau á opinskáan hátt án fordóma. Samkvæmt greininingu gagnasérfræðingsins Elise Aasen taka um 50 þúsund manns þátt í umræðum á rússnesku vefsvæði þáttarins og Wikipedia-síður um þáttinn eru til á 13 tungumálum. Því er ljóst að boðskapur þáttanna berst til staða þar sem ekki er sjálfsagt að þessi mál séu rædd af skynsemi. Virkni á Weibo, kínversku útgáfunni af Twitter, bendir til að um 100 milljónir notenda hafi fylgst með þáttunum þar í landi.

Björn Már Ólafsson tók saman nokkra algenga frasa úr Skam og þýddi þá yfir á íslensku. Aðdáendum þáttanna hér á landi til mikillar ánægju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert