SKAM-æðið hefur haft víðtæk áhrif

Endurmenntun HÍ býður upp á norskukennslu sem felur í sér …
Endurmenntun HÍ býður upp á norskukennslu sem felur í sér að horfa á og tala um SKAM. Mynd/NRK

„SKAM Þættirnir hafa aukið áhuga ungmenna á norsku og skandinavískum málum, og það var að einhverju leyti kveikjan að þessu. Hvernig má nýta þættina til að efla tungumálakennslu yfir höfuð. Að fólk fái áhuga á öðrum málum en enskunni sem er að tröllríða öllu,“ segir Hugrún Geirsdóttir, verkefnastjóri styttri námskeiða hjá Endurmenntun Háskóla Íslands.

Á dagskrá Endurmenntunar er komið námskeið sem haldið verður í haust og ber nafnið NÅ KOSER VI OSS! - Þjálfun í norsku með hjálp SKAM. Eins og nafnið gefur til kynna þá er um að ræða námskeið í norsku, þar sem unglingaþættirnir SKAM, sem notið hafa mikilla vinsælda hér á landi, eru nýttir við kennsluna. Þátttakendur á námskeiðinu koma til með að horfa á þættina heima og tala svo um þá að námskeiðinu, á norsku að sjálfsögðu.

Mikill SKAM aðdáandi

Hugrún á sjálf heiðurinn að þessari hugmynd og viðurkennir að áhugi hennar á SKAM hafi haft sitt að segja að þegar kom að því að setja námskeiðið á dagskrá. „Þar fyrir utan er mjög merkilegt hvað SKAM hefur haft víðtæk áhrif. Æðið sem riðið hefur yfir hefur varla farið fram hjá neinum sem eitthvað fylgist með.“

Hugrún segir sjónvarpsþætti sem þessa líka kjörna til að fjalla um menningu landa. „Í SKAM erum við til dæmis með unglingamenninguna og slanguryrði. Það er líka aðeins komið inn norskar mállýskur í þáttunum.“

Námskeið í þýsku með svipuðu sniði hefur verið haldið hjá Endurmenntun, en þá var horft á þýska sápuóperu. „Það voru mjög vinsæl námskeið og það var greinilegt að fólk sem hafði einhvers konar grunn í tungumálinu, fannst þetta skemmtileg aðferð til að viðhalda þýskukunnáttunni og efla orðaforðann.“

Skemmtilegt tungumálanámskeið 

Það er Barbro E. Lundberg, kennsluráðgjafi og kennari við Tungumálaverið, sem kennir námskeiðið. Hún þekkir þættina mjög vel og er ánægð með þessa norsku bylgju, að sögn Hugrúnar. 

Námskeiðið hentar öllum þeim sem vilja efla norskuna og njóta þess að horfa á og fjalla um SKAM. „Þetta er ekki algjört byrjendanámskeið, en það er nóg að hafa stúdentspróf í dönsku og hafa einhverja máltilfinningu fyrir þessum skandinavísku málum. Barbro telur líka að námskeiðið geti hentað dönskukennurum á grunn- og framhaldsskólastigi, sem vilja víkka út sína kennslu og kynna sér þessa SKAM bylgju enn frekar,“ segir Hugrún og bætir við:

„Þetta er svona skemmtilegt tungumálanámskeið, myndi ég segja. Það er ekki gert ráð fyrir að þú sért að gera mikið af verkefnum, ekki frekar en þú vilt. Þarna færðu að æfa þig, bæði í norsku slangri og almennri norsku.“

Námskeiðið er í október en skráning er hafin á vef Endurmenntunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert