Brak vélarinnar verður flutt á morgun

Nú er ljóst að rannsókn á vettvangi flugslyssins á Akureyri lýkur ekki í kvöld eins og stefnt var að. Brak flugvélarinnar, sem dreifðist um akbraut Bílaklúbbs Akureyrar, verður því ekki flutt burt fyrr en á morgun. Frekari rannsóknir taka þá við.

Að sögn Þorkels Ágústssonar, rannsóknarstjóra hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, verður brak sjúkraflugvélarinnar flutt í hús rannsóknarnefndarinnar á morgun. Í kjölfar vettvangsrannsóknar tekur við frumrannsókn, þar sem m.a.  verður farið yfir samskipti milli flugstjóra og flugturns, og tæknirannsókn á flugvélinni sjálfri.

Búast má við því að endanleg niðurstaða þessara rannsókna liggi ekki fyrir fyrr en eftir nokkrar vikur eða mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert