Fréttaskýring: Móðirin hvarf í eldhafið

Theodór Fannar Eiríksson.
Theodór Fannar Eiríksson. mbl.is/Golli

„Mér brá svo ótrúlega og gerði það fyrsta sem mér datt í hug; að slökkva eldinn í andlitinu á mömmu,“ sagði Theodór Fannar Eiríksson, 17 ára piltur sem kom móður sinni til bjargar á mánudagskvöld en þá varð eldsprengja í svonefndu etanól-eldstæði á heimili þeirra.

Móðir hans, Margrét Sverrisdóttir, brenndist alvarlega í andliti og á höndum en ljóst þykir að mun verr hefði getað farið ef ekki væri fyrir viðbrögð Theodórs.

Tilkynnt var um eldsvoðann um klukkan sjö og var það Theodór sem hringdi í Neyðarlínuna. Eftir að slökkviliðið kom á vettvang gekk slökkvistarf greiðlega en mikið tjón varð á íbúðinni, sem er tveggja hæða raðhús við Fagrahjalla í Kópavogi.

Áður en kom að því að tilkynna um eldsvoðann hafði hins vegar mikið gengið á hjá Theodóri. Hann var ásamt móður sinni að elda kvöldmat þegar þau ákváðu að kveikja upp í arninum. Eiginmaður Margrétar og stjúpfaðir Theodórs var að heiman við vinnu. Eldstæðið er í stofunni og eins og eldhúsið og svefnherbergi á efri hæð hússins. Eldstæðið er nokkurra ára og hefur Margrét margoft bætt etanóli á það á sama hátt og hún gerði á mánudagskvöld.

„Annað hvort hefur komið neisti eða einhver hiti í ofninum sem hefur orsakað sprengingu,“ segir Theodór og segist hafa horft á móður sína hverfa í eldhafið. „Það kom þarna risastór eldsprengja og frá mínu sjónarhorni kviknaði hreinlega í andlitinu á mömmu.“

Greip teppi og slökkti eldinn

Þó svo honum hafi brugðið mikið stirðnaði Theodór ekki í sporunum. „Það fyrsta sem ég gerði var að hlaupa að henni, ég tók upp næsta gólfteppi sem ég fann og reyndi að slökkva í andlitinu á henni með teppinu. Þegar mér tókst það slökkti ég eld sem var við magann á henni og að lokum hellti ég vatni yfir fætur hennar því mér sýndist eldur loga þar einnig. Svo hlupum við út úr íbúðinni, settum snjó á andlit hennar og komumst inn hjá nágranna okkar.“

Þaðan hringdi Theódór í Neyðarlínuna og tilkynnti um atburðinn. Á meðan horfði hann á eldinn breiða úr sér á efri hæð hússins, þar sem hann gaus um fimm metra upp í loftið, en það er lofthæðin í stofunni. Margrét beið á meðan eftir sjúkrabílnum í snjónum.

Eins og áður segir gekk slökkvistarf greiðlega og eldurinn breiddi ekki mikið úr sér. Theodór segist þó telja að allt inni í stofunni sé ónýtt og eflaust mest allt á efri hæðinni. Skemmdir á neðri hæð hússins ættu að vera töluvert minni og helst af völdum sóts og reyks. Fjölskyldan hefur ekki fengið að fara inn í húsið til að athuga með skemmdir og ráðgert er að fara í það í dag.

Stolt af stráknum sínum

Margrét lá á Landspítalanum í gær þegar Morgunblaðið náði tali af henni og sagðist afskaplega stolt af stráknum sínum. Spurð út í atvikið sagðist hún ekki skilja hvernig þetta gat gerst og varar aðra eigendur slíkra eldstæða við, svona etanól-eldstæði geti greinilega verið lífshættuleg, enda sé þetta ekki einsdæmi, og ekki hér á landi. Hún vonast til að slysið verði alla vega til þess að forða öðrum frá því að lenda í því sama. Sumarið 2010 varð annað eins slys, en þá var kona á Selfossi einnig að fylla á eins eldstæði með sömu afleiðingum. Hún brenndist illa í andliti og á höndum.

Theodór segir lífsreynsluna hafa verið hrikalega en þakkar engu að síður fyrir að hafa verið í sama herbergi og móðir hans þegar þetta gerðist. Hann segist ekki vilja hugsa til þess hefði hann verið staddur á neðri hæðinni.

Vinsæl eldstæði hér á landi

Etanól-eldstæði eru vinsæl hér á landi enda fremur ódýr lausn þar sem ekki þarf reykrör. Í slíkum eldstæðum er etanól brennt í opnum skálum og því er eldhætta töluverð.

Brunamálastofnun þótti ástæða til að benda sérstaklega á eldhættuna í desember 2009. Þá var stofnuninni kunnugt um að sprenging hefði orðið í einu slíku eldstæði í Færeyjum með þeim afleiðingum að kviknaði í húsinu.

Orsökin var talin sú að nokkuð af etanóli hafði hellst niður í lokaðan botn í arninum. „Við hitann frá logunum gufaði etanólið upp þar til innihald þess í loftrýminu í arninum náði sprengimörkum en við það varð sprenging og logandi etanól dreifðist út frá arninum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert