Búið að gangsetja 200 ker

Álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði.
Álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði. Reuters

Tvöhundraðasta kerið var í gærkvöldi gangsett í álveri Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði. Búist er við að gangsetningu ljúki um mánaðamótin mars-apríl, en samtals eru 336 ker í tveimur kerskálum álversins.

Alcoa Fjarðaál segir, að gangsetningin hafi gengið framar vonum og fyrirtækið hafi á skömmum tíma breyst úr stærsta byggingarstað landsins í eitt stærsta framleiðslufyrirtæki landsins. Flutt hafi verið út um 40 þúsund tonn af áli sem fara á markað í Evrópu.

Þegar álverið verður komið í fullan gang mun það framleiða um 346.000 tonn af áli á ári og auka vöruflutninga frá landinu um nær fjórðung.

Verið er að ljúka ráðningu starfsfólks í álverið en þar munu starfa liðlega 400 manns. Við gangsetningu sjálfa starfa að auki um 200 manns frá undirverktökum og Alcoa samsteypunni sem hverfa munu á braut þegar framleiðslan er komin á fullt skrið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert